Saksóknarar í Danmörku hafa ákveðið að ákæra norræna bankann Nordea fyrir stórfelld brot á peningaþvættislöggjöf landsins.
Brotin áttu sér stað á árunum 2012 til 2015 en samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen er um að ræða gjaldeyrisviðskipti upp á 26 milljarða danskra króna eða 520 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins.
Flest viðskiptin tengjast útibúi Nordea í Nørrebro við gjaldeyrismiðlafyrirtæki tengd rússneskum stórviðskiptavinum bankans.
Nóg af 500 evru seðlum í Nørrebro
Málið fékk ítarlega umfjöllun hjá TV 2 árið 2018 en þar var farið yfir hvernig gjaldeyrismiðlafyrirtækið New Travel & Exchange pantaði 500 evru seðla frá Nordea-útibúinu í Nørrebro fyrir 210 milljónir danskra króna.
Þrátt fyrir að yfirvöld höfðu varað alla banka landsins við því að 500 evru seðilinn væri vinsæll meðal glæpamanna voru um 97% af öllum gjaldeyrisviðskiptum New Travel & Exchange við Nordea með 500 evru seðla.
Í frétt Børsen segir að þrátt fyrir að enginn kaupi matvörur með 500 evru seðli hafi þetta verið einhver vinsælasti seðillinn í útibúi Nordea í Nørrebro árum saman.
Nordea sendi frá sér tilkynningu í morgun þar sem bankinn hafnar því alfarið að hafa farið á svig við lög.
Bankinn segist ósammála túlkun danskra yfirvalda á peningaþvættislöggjöfinni.
Samkvæmt frétt Bloomberg lagði Nordea frá 95 milljónir danskra króna árið 2019 vegna mögulegrar sektar í tengslum við rannsókn málsins.
Í ársreikningi Nordea var tekið fram að peningurinn væri lagður til hliðar vegna veiks eftirlits með peningaþvætti í fortíðinni. Taldi bankinn upphæðina nægja til að greiða mögulega sekt en nú hafa saksóknarar þó ákveðið að ákæra í málinu.