Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði á fyrr í mánuðinum fram frumvarp á Alþingi sem snýr að breytingum á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála. Frumvarpinu er ætlað að bregðast við niðurstöðu héraðsdóms í máli Hvammsvirkjunar, þar sem heimild Umhverfisstofnunar um breytingar á vatnshloti í Þjórsá var ógild og þar með ákvörðun Orkustofnunar um að veita Landsvirkjun leyfi til að reisa og reka Hvammsvirkjun.
Landsvirkjun óskaði eftir leyfi til að áfrýja málinu beint til Hæstaréttar og var sú beiðni samþykkt fyrr í þessari viku. Telur fyrirtækið að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur sé í meginatriðum rangur og því fari fjarri að hægt sé að túlka vilja löggjafans á þann hátt sem þar er gert.
Hvað frumvarpið varðar var það ekki birt í samráðsgátt áður en það var lagt fram fyrir þingið sökum þess hve brýnt var að fá niðurstöðu í málinu. Frumvarpið gekk til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um miðjan mánuð sem óskaði í kjölfarið eftir umsögnum en umsagnarfresturinn rennur út í dag.
Landsvirkjun er meðal þeirra sem hafa skilað inn umsögn þar sem frumvarpi umhverfisráðherra er fagnað og ánægjulegt sé að vilji standi til að einfalda leyfisveitingarferli tengt orkumálum.
Bent er á að í Evrópulöggjöf teljist aukin vinnsla endurnýjanlegrar orku til brýnna almannahagsmuna á grundvelli raforkuöryggis og framgangs loftslagsmarkmiða. Það sama eigi við hér á landi samkvæmt orkustefnu og raforkulögum, ásamt því að vera lykilbreyta í efnahagslegum stöðugleika og þjóðaröryggi.
„Í rökstuðningi fyrir breytingu á vatnshloti Þjórsár færði Landsvirkjun þannig rök fyrir því að tilgangur framkvæmdarinnar vegi þyngra vegna almannaheilla og fyrir sjálfbæra þróun en ávinningur af því að umhverfismarkmið náist. Það er skoðun Landsvirkjunar að ekki sé hægt að aðskilja orkuskipti og sjálfbæra atvinnuþróun frá raforkuöryggi og hefur sú túlkun m.a. verið staðfest í greinargerð Umhverfisstofnunar um heimild til breytinga á vatnshloti Þjórsá 1,“ segir í umsögninni.
Lengi vel hafi Landsvirkjun vakið athygli á mikilvægi þess að virkjunarkostir séu þróaðir í tíma til að mæta raforkuþörf þjóðarinnar. Fyrirséð er að raforkuþörf muni aukast umtalsvert á komandi árum en samkvæmt spá Landsnets muni fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir á næstu 5 árum eingöngu halda afl- og orkujöfnuði í horfinu og hætta sé á skerðingu forgangsorku.
„Landsvirkjun telur raforkuöryggi ógnað með þeim töfum sem hafa orðið á leyfisveitingarferlumvegna uppbyggingar raforkuinnviða og telur brýnt að koma í veg fyrir frekari tafir.“
Virkjunar- og framkvæmdaleyfi til bráðabirgða
Umsögn Landsvirkjunar er tvískipt og fjallar annars vegar um breytingu á 34. grein raforkulaga og hins vegar breytingu á 18. grein laga um stjórn vatnamála. Hvað fyrrnefndu breytinguna varðar telur Landsvirkjun að það sé jákvætt skref að lögð sé fram tillaga um flýtimeðferð við afgreiðslu virkjunarleyfis þegar brýn þörf er á.
Að sama skapi er bent á að í gildandi löggjöf, þ.á.m. í lögum um fiskeldi og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sé að finna ákvæði sem kveða á um heimild til þess að gefa út leyfi til bráðabirgða í þeim tilvikum þar sem leyfi hafa verið felld úr gildi. Er því ætlað að skapa tímabundið svigrúm til að bregðast við mögulegum annmörkum úrskurðaraðila og/eða láta reyna á lögmæti ógildingar leyfisins fyrir dómstólum.
Fjölmörg dæmi séu fyrir því að leyfi hafi verið felld úr gildi vegna óverulegra annmarka í málsmeðferð eða afgreiðslu stjórnvalda, sem hafi leitt til verulegra tafa og tjóns fyrir aðila og samfélagið í heild.
„Landsvirkjun telur mikilvægt að slík sérúrræði séu ekki einskorðuð við aðila sem fá útgefin starfsleyfi af hálfu Umhverfis- og orkustofnunar eða rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis, heldur þurfi sambærileg úrræði einnig að vera fyrir hendi í tilviki innviðauppbyggingar í samfélaginu, líkt og orkuvinnslu, byggingar flutningsmannvirkja og vegagerðar. Með vísan til þess leggur Landsvirkjun til að skoðað verði að gera breytingar á raforkulögum og skipulagslögum sem feli í sér að heimilt verði að veita virkjunar- og framkvæmdaleyfi til bráðabirgða, þegar sérstök rök mæla með því, í þeim tilfellum þar sem framkvæmdaleyfi eða virkjunarleyfi eru felld úr gildi vegna annmarka á formi eða efni,“ segir í umsögninni.
Verulegar líkur á að niðurstöðu héraðsdóms verði hnekkt
Hvað síðarnefndu breytinguna varðar, sem snýr að breytingum á vatnshloti, tekur Landsvirkjun ekki efnislega afstöðu á þessu stigi þar sem Hæstiréttur eigi eftir að skera úr um forsendur og túlkun héraðsdóms. Áhersla er lögð á að brýnt sé að niðurstaða fáist í málinu.
Að mati héraðsdóms skorti Umhverfisstofnun viðhlítandi lagastoð fyrir því að heimila breytingar á vatnshloti skv. 18. gr. laga um stjórn vatnamála. Túlkun dómsins byggði á breytingartillögu í nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis um að ákvæðið ætti ekki við um breytingar á vatnshloti vegna nýrra framkvæmda á borð við vatnsaflsvirkjanir. Þar með hafi það verið skýr vilji löggjafans að breytingar vegna slíkra framkvæmda ættu að falla utan ákvæðisins.

Landsvirkjun bendir þó á að hefði það verið ætlun löggjafans að lög um stjórn vatnamála skyldu standa í vegi fyrir nýjum vatnsaflsvirkjunum og öðrum stærri framkvæmdum sem gætu haft áhrif á vatnshlot, hefði það verið ein stærsta pólitíska ákvörðun þess tíma. Ekkert bendi þó til að það hafi verið ætlunin, hvorki í skjölum né umræðum á Alþingi. Þess í stað hafi verið um að ræða minni háttar breytingar og deilur um orðalag.
Tilgangurinn hafi verið að innleiða vatnatilskipun ESB án nokkurra efnislegra breytinga og bent er á að dómstóll Evrópusambandsins hafi staðfest að vatnsaflsvirkjanir falli undir umrætt ákvæði sem deilt er á um. Loks er bent á að árið 2015 hafi Alþingi samþykkt þingsályktunartillögu sem færði Hvammsvirkjun úr biðflokki í orkunýtingarflokk rammaáætlunar.
„Slík ályktun hefði tæplega náð fram að ganga ef löggjafinn ætlaði að haga stjórn vatnamála á þann veg að koma beinlínis í veg fyrir að virkjunin yrði að veruleika,“ segir í umsögninni. „Það er því mikil óvissa um hvort að framangreind niðurstaða héraðsdóms eigi við rök að styðjast og að mati Landsvirkjunar eru verulegar líkur á því að henni verði hnekkt á æðra dómstigi.“