Sýn segir í nýbirtu uppgjöri fyrir fyrri hluta ársins að bráðabirgðaákvörðun Fjarskiptastofu (FST) um að skylda félagið til að afhenda sjónvarpsútsendingar sínar til dreifingar hjá Símanum skapi ákveðna óvissu.
Félagið hefur þegar kært ákvörðunina til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og krefst bæði ógildingar og stöðvunar réttaráhrifa á meðan málið er til meðferðar.
Ágreiningurinn hófst í júlí þegar Síminn krafðist þess að FST skyldi Sýn til að afhenda bæði opnar línulegar sjónvarpsrásir og læstar íþróttarásir, meðal annars með útsendingum frá enska boltanum, til dreifingar um IPTV-myndlykla og smáforrit Símans.
FST féllst á kröfuna 30. júlí með vísan til þess að Síminn gæti orðið fyrir „verulegu fjártjóni“ ef til aðgerða væri ekki gripið.
„Bráðabirgðaúrskurður Fjarskiptastofu um flutning á sjónvarpsútsendingum Sýnar, sbr. skýring nr. 12, skapar ákveðna óvissu og verða áhrif hans metin þegar frekari upplýsingar liggja fyrir,” segir í uppgjöri Sýnar.
Ákvörðunin gildir til allt að 1. september 2026 en Sýn kærði hana strax til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála og krefst ógildingar og stöðvunar réttaráhrifa.
Sýn heldur því fram að ákvörðunin sé bæði ólögmæt og illa undirbúin.
Félagið segir að með því að framlengja fyrri dreifingarsamning einhliða hafi það afstýrt þeim „bráða vanda“ sem FST byggði ákvörðun sína á.
„Sýn heldur því fram að lagaskilyrði fyrir töku bráðabirgðaákvörðunar hafi verið brostin, sérstaklega eftir að Sýn framlengdi einhliða fyrri dreifingarsamning og afstýrði þannig þeim „bráða vanda“ sem krafan byggði á. Þá er því haldið fram að málsmeðferð FST hafi brotið gegn grundvallarreglum stjórnsýsluréttar, þar á meðal rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og andmælarétti, þar sem ákvörðunin hafi verið byggð á gögnum sem Sýn fékk ekki tækifæri til að andmæla og að stofnunin hafi sýnt af sér hlutdrægni,” segir í uppgjöri Sýnar.
Efnislega heldur Sýn því fram að FST hafi rangtúlkað ákvæði fjölmiðlalaga, einkum um jafnræði og hvað teljist „eðlileg og sanngjörn“ beiðni um flutningsrétt í ljósi nýrrar tækni (OTT) sem Sýn býður öllum á jafnræðisgrundvelli.
Auk þess segir Sýn að kostnaður við útsendingarétt á enska boltanum og öðrum erlendum íþróttaviðburðum falli að mestu á seinni hluta ársins.
Því megi búast við hærri kostnaði á þriðja og fjórða ársfjórðungi, en félagið bendir á að sala áskrifta í júlí hafi farið fram úr væntingum þegar enski boltinn hófst á ný.
Sýn undirstrikar þó að ef ákvörðun Fjarskiptastofu verður staðfest geti hún haft áhrif á tekjur og afkomu sjónvarpsrekstrarins til lengri tíma, einkum þar sem félagið byggir rekstrarlíkanið á því að geta selt áskriftir að eigin efni á eigin dreifikerfum.
Í uppfærðri afkomuspá Sýnar fyrir árið 2025 er nú gert ráð fyrir að EBITDAaL verði á bilinu 4,0–4,2 milljarðar króna, samanborið við 4,0–4,4 milljarða í fyrri spá.
Fjárfestingar eru nú metnar 3,3–3,5 milljarðar króna í stað 3,8–4,0 milljarða áður.
EBIT-niðurstaðan er óbreytt, á bilinu 0,8–1,0 milljarðar króna, en félagið segir að bæði kostnaður vegna endurmörkunar vörumerkja og greiðslur vegna enska boltans þrýsti á rekstrarafkomu á seinni hluta ársins.