Samkvæmt svörum fjármálaráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins liggur ákvörðun ekki fyrir um hvort eftirstandandi hlutur ríkisins í Íslandsbanka verður seldur fyrir árslok.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur í samstarfi við fjármála- og lögfræðiráðgjafa ráðuneytisins unnið að undirbúningi sölunnar og stóðu væntingar til að ferlið myndi hefjast á næstu vikum.
Ríkið á um 850 milljón hluti í Íslandsbanka sem samsvarar um 42,5% hlut en til stóð að selja um helming allra hluta ríkisins fyrir árslok. Eftirstandandi hlutur yrði síðan seldur á næsta ári.
Miðað við núverandi markaðsgengi Íslandsbanka er eignarhlutur ríkisins tæplega 100 milljarða króna virði.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í byrjun vikunnar hefur skuldabréfamarkaðurinn verið fremur rólegur eftir stjórnarslitin og hafa verðbólguálag til skamms tíma lækkað örlítið á mánudaginn en hefur síðan hækkað smávægilega síðustu tvo daga.
Hins vegar er ljóst að nái ríkið ekki að selja um tuttugu prósenta hlut sinn í bankanum á næstu mánuðum þarf ríkissjóður að leita annarra leiða til að mæta fjárþörf.
Ákveði ríkið að fresta sölunni fram á næsta ár má áætla að fjárlagatap ríkissjóðs verði um 45 milljarðar króna en samkvæmt sérfræðingum á skuldabréfamarkaði mun ríkið að öllum líkindum mæta því með sölu á ríkisvíxlum fremur en útgáfu á óverðtryggðum eða verðtryggðum ríkisskuldabréfum.
Rólegt hefur verið á hlutabréfamörkuðum frá því að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti um stjórnarslit á sunnudaginn.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði um 3,5% á mánudaginn og fór úr 114 krónum í 117 krónur. Gengið hefur síðan þá lækkað um rúm 2% og stendur í 114,5 krónum þegar þetta er skrifað.