Alcoa Fjarðarál hefur stefnt Eimskipi og Samskipum vegna meints tjóns í tengslum við sakarefni í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í fyrra, sem komst að þeirri niðurstöðu að skipafélögin hafi stundað samráð á árunum 2008-13.
Samskip hafa neitað því harðlega að hafa staðið í samráði og kært ákvörðunina til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu Eimskips byggir Alcoa tjón sitt alfarið á minnisblaði ráðgjafafyrirtækisins Analytica ehf., sem inniheldur svonefnt frummat, frá 21. febrúar 2024.
Alcoa krefst skaðabóta að fjárhæð 3.086.000.000 króna, auk dráttarvaxta frá 24. maí 2024, óskipt úr hendi félaganna vegna meints tjóns.
Í Kauphallartilkynningunni er einnig tekið fram að Eimskip hafi einnig fengið ráðgjafafyrirtækið Hagrannsóknir sf., sem fræðimennirnir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands og dr. Ragnar Árnason prófessor emeritus standa að, til yfirfarið umrætt minnisblað og unnið skýrslu um efni þess.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um er reiknivilla í minnisblaðinu en Analytica þurfti einnig að gefa sér fjölmargar forsendur að beiðni Félags atvinnurekenda, Neytendasamtakanna og VR sem borguðu fyrir vinnuna.
Ein stærsta forsendan sem Analytica þurfti að gefa sér er sú að fyrirtækið fékk engar upplýsingar um verðþróun Eimskips á tímabilinu 2008 til 2013. Því þurfti Analytica að gefa sér að verð Eimskips hafi þróast með sama hætti og verð Samskipa.
Töluverð gagnrýni á álitið
Sem fyrr segir fékk Félag atvinnurekenda, Neytendasamtökin og VR ráðgjafarfyrirtækið Analytica til að meta tjón landsmanna, beinna og óbeinna viðskiptavina og verðtryggðra skuldara af völdum meints samráðs skipafélaganna Eimskips og Samskips á árunum 2008- 2013.
Félögin þrjú óskuðu sérstaklega eftir því að matið yrði byggt á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins gegn Samskipum sem skipafélagið hefur kært til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála.
Niðurstaðan var sú samfélagslegt tjón af meintu samráði væri 62 milljarðar og sendu félögin upphæðina á fjölmiðla ásamt hvatningu til allra viðskiptavina skipafélaganna um að skoða möguleikann á skaðabótamáli. Alcoa Fjarðarál hefur nú orðið við þeirri beiðni.
Margir ráku stór augu þegar frummatið var birt enda upphæðin mjög há.
Ráðgjafarfyrirtækið sjálft setur þónokkra varnagla í álitið sem Analytica tekur skýrt fram að sé einungis frummat.
Í samtali við Viðskiptablaðið, sagði Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica, að fyrirtækið þurfti að vinna frummatið eftir ákveðnum forsendum.
„Við vorum bara beðin um að miða við gögn sem mætti finna í þessari skýrslu [ákvörðun SKE] og það er náttúrulega bara forsenda okkar greiningar að þau gögn séu rétt,“ sagði Yngvi.
Ein þeirra forsenda sem greinendur Analytica þurftu að gefa sér sökum gagnaskorts er sú að verðlagning Eimskips hafi þróast eins og hjá Samskipum þar sem Analytica hafði ekki upplýsingar um verðlagningu Eimskips við gerð frummatsins.
Í kæru Samskipa til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála er Samkeppniseftirlitið harðlega gagnrýnt fyrir að taka ekki tilliti til gengisbreytinga á evru og krónu eftir efnahagshrunið 2008. Sjóflutningsverð í evrum lækkaði á meintu samráðstímabili en hækkaði í krónum vegna gengishruns. Slíkar gengisbreytingar eru því ekki hluti af útreikningum á óbeinu tjóni landsmanna.
„Samkeppniseftirlitið lítur alfarið fram hjá þeirri staðreynd að árið 2008 varð efnahagshrun á Íslandi þar sem íslenska krónan féll um 50% á aðeins nokkrum mánuðum,” segir í stjórnsýslukæru Samskipa vegna ákvörðunar SKE sem unnið var eftir.
Eimskip fékk í vor Ragnar Árnason, prófessor Emeritus í hagfræði við Háskóla Íslands, til að fara yfir frummatið en hann kemst að þeirri niðurstöðu að alvarleg reiknivilla sé í útreikningum á svokölluðu allra tapi (e. Deadweight loss).
Samkvæmt útreikningum Analytica er áætlað að allratapið væri um 3,7 milljarðar króna.
Í uppgjöri Eimskips segir að Ragnar hafi farið yfir frummatið og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að farið sé eftir öllum forsendum Samkeppniseftirlitsins er allratapið ekki nema 122 milljónir króna í stað 3,7 milljarða.
Í árshlutauppgjöri Eimskips, líkt og var gert í umfjöllun Viðskiptablaðsins í apríl, er bent á það að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins tekur ekki tillit til gengisbreytinga og því er gengishrun krónunnar eftir hrun ekki með í myndinni þegar verðhækkanir í evrum eru reiknaðar.

Eimskip bendir á í uppgjöri sínu í vor að krónan veiktist um 86% gagnvart evru árið 2008 og því ekki skrýtið að sjóflutningsverð í evrum hækki í krónum talið.
Eimskip bendir einnig á þá staðreynd að þar sem VR, FA og Neytendasamtökin kröfðust þess að einungis yrði stutt við ákvörðun SKE gegn Samskipum er því ekkert að finna um verðlagningu Eimskips í frummatinu.
Analytica þurfti því vegna gagnaskorts að gefa sér að verðlagning Eimskips hafi þróast eins og hjá Samskipum.
Eimskip bendir á að þegar kemur að gámaflutningum ræðst verð oft af tilboðum og samningum sem geta verið oft mun betri en opinber gjaldskrá gefur til kynna.
Þá eru einnig sett stór spurningamerki við það að bera saman sjóflutningsverð í gámaflutningum við Baltic Dry vísitöluna sem Eimskip segir að mæli allt annan markað.
Vísitalan mælir kostnað við „bulk-flutninga” á kolum, járngrýti- og korni sem á afar lítið við íslensku skipafélögin.