Hugbúnaðarfyrirtækið Alda, sem setti Öldu-lausnina í loftið fyrir einungis ári síðan, hefur gert langtíma áskriftarsamning við Aker Solutions, dótturfélag eins stærsta fyrirtækis Noregs, Aker-samsteypunnar.

Í tilkynningu segir að samningurinn marki mikil tímamót fyrir Öldu og staðfesti stöðu fyrirtækisins sem leiðandi tæknilausn á sviði fjölbreytileika og inngildingar.

Aker Solutions, sem er orkutækniarmur Aker-samsteypunnar, er skráð í Kauphöllina í Osló og telst eitt af fimm stærstu fyrirtækjum Noregs. Starfsfólk Aker Solutions er í heildina 11.000 í 15 löndum en fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Noregi.

Fyrirtækið er undir stjórn Kjell Inge Røkke, sem er aðalhluthafi þess. Røkke er norskur viðskiptajöfur sem á meirihlutann í Aker ASA í gegnum eignarhaldsfélagið sitt, TRG. Hann hóf feril sinn sem sjómaður og byggði upp viðskiptaveldi sitt með því að kaupa og reka fiskveiðifyrirtæki, áður en hann flutti sig yfir í orkuiðnað, skipaiðnað og aðra fjölbreytta starfsemi.

Lausn Öldu mun þá ná yfir allt fyrirtækið, þar sem langtímasamstarf við Aker-samsteypuna er fyrirhugað.

„Alda hefur gjörbreytt því hvernig við styðjum við fjölbreytileika og inngildingu þvert á vinnustaðinn, lönd og svæði. Fyrir fyrirtæki af okkar stærðargráðu liggur virðið í því að geta nálgast á einum stað rauntímagögn, lykilmælikvarða og markmiðasettar aðgerðaáætlanir,“ segir Martin Devor, framkvæmdastjóri hjá Aker Solutions.

Lausn Öldu nýtir gervigreind til að veita rauntímagögn og sérsniðnar aðgerðaáætlanir. Hún hefur þegar verið innleidd hjá stórfyrirtækjum á alþjóðavísu og er fáanleg á 17 tungumálum.