Bubbi Morthens hefur gert heildarsamning við Öldu Music, dótturfélag Universal Music Group, en í því felst að fyrirtækið eignast allt höfundarverk Bubba frá árinu 1980. Innifalinn er m.a. réttur til að nýta nafn og líkindi listamannsins til framtíðar.

Bubbi er fyrsti íslenski tónlistarmaðurinn sem gerir slíkan samning, að því er segir í tilkynningu.

Undirritun samningsins fór fram í gamla húsnæði Kassagerðarinnar í Sundahöfn, en þar hófst vegferð Bubba Morthens sem listamanns, fyrir tæplega hálfri öld síðan.

Samningurinn er gerður í gegnum dótturfélag Universal Music Group hér á landi, Öldu Music en áður hefur Universal gert slíka samninga við Bob Dylan meðal annars.

Samningurinn er samkvæmt Sölva Blöndal, framkvæmdastjóra Öldu Music, hvoru tveggja viðurkenning á íslenska markaðnum og á þeim sess sem Bubbi hefur meðal íslensku þjóðarinnar.

„Bubbi Morthens á engan sinn líka. Ég hef verið svo heppinn að fá að starfa náið með honum síðustu ár og fengið að kynnast sköpunarferlinu sem býr að baki þessu stórmerkilega höfundarverki sem spannar hátt í fimm áratugi. Það er vel við hæfi að Bubbi ryðji brautina enn á ný með fyrsta samningnum af þessari gerð hér á landi", segir Sölvi.

Tvær nýjar Bubba-plötur væntanlegar

Til viðbótar við að öðlast réttinn á eldri plötum Bubba, mun Alda Music standa að útgáfu tveggja næstu hljóðversplatna listamannsins, en hann vinnur nú að því að semja efni á þær. Alls hefur Bubbi gefið út 825 lög á ferlinum sem komið hafa út á 40 sólóplötum, 10 hljómsveitarplötum og 6 tónleikaplötum.

„Við hlökkum til að standa þétt að baki Bubba í hans framtíðarverkefnum. Hann á nóg eftir og sköpunarkrafturinn er ótrúlegur, eins og Íslendingar þekkja. Tekjur tónlistarfólks koma í dag úr mörgum ólíkum áttum og við teljum að með Öldu Music sem bakhjarl geti það fengið meira fyrir sinn snúð, sama hvar og hvernig höfundarverk þeirra og nafn kemur fram“, segir Andri Þór Jónsson, yf­ir­maður markaðsmá­la hjá Öldu Music.

Síðustu fjórar breiðskífur Bubba hafa komið út hjá Öldu Music og inihalda meðal annars lögin Regnbogans stræti, Ástrós og Tárin falla hægt (smáskífa). Þau bætast í hóp eldri laga sem Bubbi hefur gert ódauðleg, eins og Rómeó og Júlía, Afghan, Fallegur dagur, Gott að elska, Rækjureggí og Fjöllin hafa vakað.