Caterpillar, stærsti vélaframleiðandi í heiminum á aldarafmæli í ár. CAT varð upprunalega til við sameiningu Holt Manufacturing Company og C. L. Best Tractor Company árið 1925 og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað síðan og eru nú um 2,1 milljón CAT vinnuvéla í notkun í framkvæmdum um allan heim.
Velta CAT á heimsvísu var 64,8 billjón bandaríkjadalir á síðasta ári og er 38% af veltu CAT í heimalandinu og 62% í öðrum löndum heims. Hjá fyrirtækinu starfa tæplega 113 þúsund starfsmenn víðs vegar um heiminn og er CAT með starfsemi í um 190 löndum.
Klettur, áður vélasvið Heklu, hefur verið umboðs- og þjónustuaðili Caterpillar á Íslandi síðan 1947 og er fyrirtækið einn elsti samstarfsaðili CAT í Evrópu.
Kristján Már Atlason, forstjóri Kletts segir að gríðarleg áhersla hafi verið lögð á vöru- og tækniþróun hjá CAT á síðustu árum.
„Þar má nefna aukna sjálfvirknivæðingu vélanna og stafræna þjónustu sem henni tengist. Menn eru jafnvel að sitja í stjórnherbergjum og stýra vélum í námum sem eru þá mannlausar og er CAT komið frekar langt í þessu.
CAT er líka að leggja mikla áherslu á að gera vélarnar umhverfisvænni. Rafvæðing minni véla er í örri þróun sem og hybrid lausnir fyrir stærri tæki sem þeir sjá ekki fyrir sér að fari á rafmagn eða annan orkugjafa. Með þessari þróun hefur t.d. verið hægt að lækka eldsneytisnotkun um 60% í jarðýtum og 30% í hjólaskóflum með hybrid lausnum, sem lækkað hefur kolefnisspor vélahluta framkvæmda umtalsvert.”
Visionlink, sem er stafrænt þjónustukerfi CAT hefur verið aðalsmerki fyrirtækisins á síðustu árum, en nú eru um 1,5 milljón véla nettengdar inn í Visionlink.
„Hjá CAT er mikil áhersla á stafrænar lausnir sem nýtast viðskiptavinum í flóknum framkvæmdum. Visionlink hefur lækkað viðhaldskostnaðinn, en með því að fylgjast með vélunum í rauntíma og fá villumeldingar inn í tæknideildina sem við rekum, flestallir umboðsmenn CAT í heiminum reka slíkar deildir. Þetta eykur uppitíma vélanna sem skiptir öllu máli; þetta eru dýrar vélar sem mega ekki stoppa og eru mikilvægar í þeim verkefnum sem verið er að vinna. Þessi framþróun hefur leitt til aukinna afkasta og betri nýtinga á vélunum og þar með betri reksturs og framlegðar verka hjá verktökum,” segir Kristján.

Sterk markaðsstaða á Íslandi
Caterpillar er með öfluga markaðsstöðu hér á Íslandi, þá einkum í stærri vinnuvélum. Hátt á sjötta hundrað Caterpillar vinnuvéla eru í notkun hér á landi og þar af eru 430 stærri vinnuvélar nettengdar við Visionlink hérlendis. Að auki eru rúmlega 100 eldri vélar enn að sinna eigendum sínum víða um land án þess að vera nettengdar.
„Auk þess erum við með mikið af aflvélum af ýmsum gerðum í notkun og þjónustu á Íslandi. Þetta eru þá aðalvélar og ljósavélar í útgerð, varaaflsvélar í gagnaverum, á spítölum, bankastofnunum og fiskeldisfyrirtækin þurfa jafnframt varaaflstöðvar. Þannig að CAT vélar eru notkun hérlendis í flestum helstu atvinnugreinum,” segir Kristján.
Helstu markaðir CAT á heimsvísu hafa verið almennar byggingarframkvæmdir, orkukerfi eins og olía og gas, og þá eru þeir mikið í vélum tengdum námuvinnslu og lestarkerfum. „CAT vélar hafa gengt lykilhlutverki í mörgum af stærstu framkvæmdum mannkynssögunnar. Má þar nefna Hoover virkjunin, Golden Gate brúin, uppbygging þjóðvegakerfis Bandaríkjanna árið 1944, Bhakra stíflan á Indlandi, Panama skurðurinn, og þá knúðu CAT vélar ferð Appollo 11 til tunglsins árið 1969.
Þannig að CAT hefur spilað lykilhlutverk og þeirra sýn að framleiða vélar til styðja við framþróun og byggja upp betri lífsgæði í heiminum,” segir Kristján.

Líkt og annars staðar hefur CAT komið við sögu í öllum helstu framkvæmdum á Íslandi. Má þar nefna í öllum virkjanaframkvæmdum, í vegagerð, í brúarframkvæmdum og jarðgangnagerð. CAT vélar hafa mikið verið notaðar í byggingarframkvæmdum, þá einkum í jarðvinnu í stærri byggingum og líka í hafnarframkvæmdum og framkvæmdum við flugvelli.
Þá hafa CAT vélar, einkum stærstu jarðýturnar, spilað stórt hlutverk í uppbyggingu varnargarða í Grindavík við að verja bæinn og alla innviðina.
„Það hefur gengið alveg gríðarlega vel og það verkefni vekur mikla athygli hjá hátt settum stjórnendum Caterpillar og eru þau áhugasöm að fylgjast með framvindu þess verkefnis. Þau eru mjög forvitin um það verkefni og í hvert skipti sem maður hittir þau er spurt um varnargarðaverkefnið.
Þeim finnst myndir af framkvæmdum sem við eigum mjög merkilegar, myndir af jarðýtum sem eru jafnvel ýta til nýrunnu hrauni til að byggja varnargaðana. Þeir dást mjög að þessu og þetta er gott dæmi um nýlegt verkefni sem CAT vélar gera mikið gagn og leggja mikið af mörkum,” segir Kristján.

Þjónustan hluti af velgengni CAT á Íslandi
„Klettur hefur alla tíð lagt gríðarlega áherslu á þjónustuþáttinn og hann hefur verið lykilatriði í velgengninni CAT á Íslandi,” segir Kristján.
„Að hægt sé að bregðast við hratt og örugglega þegar að einhver frávik verða, reglubundið viðhald skiptir miklu máli þegar tækin eru notuð mikið. Þess vegna hafa verið byggðir upp mjög öflug kerfi og ferlar í kringum viðhalds- og varahlutaþjónustu. Varahlutirnir skila sér mjög hratt og örugglega til landsins, áreiðanleikinn skiptir gríðarlegu máli.”
Klettur rekur þrjú öflug verkstæði á landinu, í Reykavík, á Akureyri og í fyrra var opnað á Völlunum í Hafnarfirði nýtt verkstæði.
„Hugmyndin er að eftir því sem tækjunum fjölgar þá verður að vera meiri afkastageta á verkstæðunum hjá okkur. Það þarf að passa upp á jafnvægi á milli sölu véla og þjónustuþátta; eftir því sem vélum og viðskiptavinum fjölgar þurfum við að passa upp á við aukum afkastagetu í þjónustu,” segir Kristján og bætir við að aðalástæðan fyrir því að nýtt verkstæði í Hafnarfirði hafi verið opnað hafi verið til að geta tryggt að það sé áfram gott þjónusustig við alla viðskiptavini Kletts.

Í þjónustudeild Kletts er vakt allan sólarhringinn og er fyrirtækið einnig með neyðarvakt svo hægt sé að bregðast við strax.
„Við erum með um 20 þjónustubíla sem eru vel útbúnir öllum verkfærum og búnaði sem þarf til að þjónusta vélarnar út um allt land. Þetta eru mikið til það stórar vélar sem oft hentar betur að sinna með þjónustu á verkstað,” segir Kristján.
„Uppitími véla skiptir öllu máli, en mjög dýrt er að vera með bilað tæki þegar stór verkefni eru í fullum gangi. Þá er gott að vera með reynda og góða fagmenn sem standa vaktina fyrir Klett og viðskiptavini alla daga. Það er það sem við höfum byggt upp og mikilvægur þáttur í því að halda viðskiptavinum ánægðum og styðja við bakið á þeim í sínum verkefnum.”
Kristján segist stoltur af því hvernig Cat hefur vegnað á Íslandi og hvernig fyrirtækið hafi dafnað og byggst upp síðustu áratugi.
„Starfsfólk Kletts og stjórnendur hafa í gegnum tíðina verið dugleg við að tileinka sér allar nýjungar og lagt mikla áherslu á að þjónustan verði eins góð og hún getur orðið með allri þeirri miklu tækni- og vöruþróun sem á sér stað hjá Caterpillar.“