Frestur til að skila umsögnum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um frumvarp umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, sem snýr að breytingum á raforkulögum og lögum um stjórn vatnamála, hið svokallaða Hvammsvirkjunarfrumvarp, rann út fyrir helgi en alls bárust 27 umsagnir.

Hagsmunasamtökin Samorka, Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð fagna efni frumvarpsins og telja að um nauðsynlegar breytingar sé að ræða, þótt stjórnvöld gætu gengið lengra. Þá greindi Viðskiptablaðið frá umsögn Landsvirkjunar sl. föstudag en fyrirtækið tók sömuleiðis vel í tillögurnar um flýtimeðferð og lagði til að ákvæði um leyfi til bráðabirgða myndu einnig ná til virkjanaframkvæmda. Landsvirkjun tók þó ekki efnislega afstöðu til breytinga á vatnshloti þar sem niðurstaða Hæstarétts liggur ekki fyrir.

Í fjölda umsagna, meðal annars frá Landsvirkjun og Samorku, er athygli vakin á varhugaverðri stöðu í orkumálum þar sem framboð hefur ekki náð að haldast í hendur við eftirspurn og hætta sé á frekari skerðingum með tilheyrandi tjóni. Orkuframleiðsla teljist til almenningshagsmuna og brýnt sé að virkjanaframkvæmdir nái fram að ganga.

Sambærileg sjónarmið koma einnig fram í umsögnum Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélags þess, Orku náttúrunnar. Orkuveitan leggur til að stjórnvöld gangi enn lengra, t.a.m. með því að lögfesta almennara ákvæði um flýtimeðferð þegar um er að ræða grænar orkuframkvæmdir í þágu almannahagsmuna. Þá eru stjórnvöld hvött til að hraða heildarendurskoðun á vatnalöggjöfinni.

„Til að markmiðum stjórnvalda um kolefnishlutleysi verði náð telur Orkuveitan jafnframt nauðsynlegt að stjórnvöld haldi áfram í vegferð sinni við að einfalda leyfisveitingarferli til að flýta uppbyggingu orkuvinnslu og dreifikerfa,“ segir í umsögninni.

Aftur á móti voru náttúru- og umhverfisverndarsinnar andvígir frumvarpinu og skiluðu nokkur umhverfisverndarsamtök sameiginlegri umsögn í formi 17 blaðsíðna lögfræðiálits þar sem sjónum var beint að samræmi við stjórnarskrá, samræmi við EES samningin, einkum vatnatilskipunina, og afturvirkni laga.

Túlkunin kemur á óvart

Kveikjan að frumvarpinu var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Hvammsvirkjunar en deilt hefur verið um túlkun dómsins á 18. grein laga um stjórn vatnamála, sem leiddi til þess að virkjanaleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi.

Athygli vekur að Mörður Árnason, fyrrum þingmaður Samfylkingarinnar, skilar inn umsögn en hann var formaður umhverfisnefndar Alþingis þegar vatnamálalögin voru samþykkt. Héraðsdómur vísaði í niðurstöðu sinni til nefndarálits téðrar umhverfisnefndar og taldi að það fæli í sér að vatnsaflsvirkjanir og aðrar framkvæmdir væru útilokaðar við breytingar á vatnshloti.

Mörður segir slíka túlkun koma sér á óvart en víðtæk samstaða hafi verið um málið að lokum á þinginu.

„Minn skilningur á þessu var þá, og er nú, í samræmi við þær skýringar í athugasemdum við frumvarpið að hinar umræddu breytingar á vatnshloti geti til dæmis verið „vegna vatnsaflsvirkjana, flóðavarna, vegagerðar eða gerðar siglingavega“.

Nú er sennilegt að þessi meining hafi ekki komið nógu vel fram í lögunum á sínum tíma, og er þá sjálfsagt að alþingi bæti nú um betur, sem gert yrði með samþykkt a-liðar 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins - að orðið „framkvæmdir“ sé sett á sinn stað í 18. grein vatnamálalaganna,“ segir í umsögn Marðar.

Hann er þó mótfallinn því að aðrar breytingar í frumvarpinu, m.a. um flýtimeðferð, nái fram að ganga án samráðs við almenning og leggur til að þær verði felldar úr frumvarpinu. Vísar hann meðal annars til hætt verði við að náttúruverndarsinnum telji að sér og sínum málstað vegið. Sömuleiðis vakni upp áleitnar spurningar um mörk löggjafarvalds og dómsvalds.

„Hafi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, eða almennir þingmenn, áhuga á öðrum lagabreytingum er skynsamlegast að standa að þeim flýtislaust í fullu samtali og samvinnu við hagaðila og almenning - þannig að allt sé frá upphafi ljóst um áhrif þeirra, spurningum sé svarað um afturvirkni, og tryggt fullt samræmi bæði við evrópska löggjöf og ákvæði stjórnarskrárinnar um þrískiptingu ríkisvaldsins.“