Gistinætur á skráðum gististöðum voru um 1.550.600 í júlí og hafa þær aldrei verið fleiri. Þar af voru gistinætur erlendra ferðamanna um 82% gistinátta, eða um 1.271.400 sem er rúmlega tvöföldun frá árinu 2021. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Gistinætur Íslendinga voru um 280 þúsund, um helmingi færri en í fyrra. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 805 þúsund, þar af 600 þúsund á hótelum. Um 745 þúsund gistingar voru á öðrum tegundum skráðra gististaða, eins og íbúðagisting, tjaldsvæði og orlofshús.

Tvöfalt fleiri hótelgistingar

Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum tæplega tvöfölduðust á milli ára og voru um 496 þúsund. Hins vegar fækkaði gistinóttum Íslendinga á hótelum um 15% á milli ára og voru þær um 103 þúsund í júlí.

Framboð hótelherbergja í júlí jókst um 19% frá júlí 2021. Þá var herbergjanýting á hótelum 88,9% og jókst um 19,3 prósentustig frá 2021.