Framboð íbúða á sölu hefur aukist á síðustu mánuðum, eftir því sem kaupsamningum hefur fækkað og fjöldi nýrra íbúða hefur komið inn á fasteignamarkaðinn, að því er segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.
Um 4.100 íbúðir voru til sölu í lok októbermánaðar á landinu öllu og voru þær um 800 fleiri en í byrjun ágústmánaðar.
HMS segir að framboð íbúða hafi ekki verið meira á landsvísu frá því að gagnasöfnun hófst á fasteignaauglýsingum í ársbyrjun 2018.
Af þessum 4.100 íbúðum sem voru til sölu á landinu öllu í lok októbermánaðar voru um 2.600 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu. Framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki mælst meira á síðustu sex árum og hefur framboð nýrra íbúða sömuleiðis náð sögulegum hæðum.
Fram kemur að mikill viðsnúningur hafi orðið á framboði íbúða á síðustu fjórum árum í öllum landshlutum. Hratt dró úr framboðinu í kjölfar skarpra vaxtalækkana árið 2020. Framboð íbúða hafi um það bil fimmfaldast á höfuðborgarsvæðinu á síðustu tveimur árum, úr 500 íbúðum á fyrri hluta ársins 2022 í rúmlega 2.500 íbúðir á haustmánuðum 2024.
Nýjar íbúðir seljast hægt
HMS rekur mikið framboð á fasteignamarkaði að miklu leyti til fjölda nýrra íbúða sem komið hafa á markað í ár og selst hægt.
Stofnunin segir vísbendingar um að byggingaraðilar leggi nú meiri áherslu á að klára verkefni sem þegar eru hafin í stað þess að hefja ný verkefni. Þetta hefur orðið til þess að margar nýjar íbúðir hafa komið inn á markaðinn síðustu mánuði.
„Hins vegar hafa nýbyggingar ekki allar selst og seljast þær hægar en aðrar íbúðir, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu. Rúmlega 44% íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu eru nýjar íbúðir, en hlutdeild nýrra íbúða er nú álíka hátt og þegar hlutdeildin náði hámarki 45% í upphafi árs 2020.“