Internet á Íslandi hf. (ISNIC) hagnaðist um 229 milljónir króna á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaðurinn 170 milljónum króna árið áður. Fyrirtækið hefur skilað stöðugum hagnaði í gegnum árin, en þó aldrei eins miklum hagnaði og árið 2024.

ISNIC er skráningarstofa landshöfuðlénsins .is og sinnir rekstri þess auk þess að reka miðlæga internettengipunktinn RIX.

Tekjur ISNIC af lénaskráningu námu 508 milljónum króna á árinu 2024 og námu heildartekjur 527 milljónum króna. Til samanburðar velti félagið 469 milljónum árið áður.

Samkomulag náðist í byrjun árs á milli Stefnis og hluthafa ISNIC um kaup SÍA IV slhf., framtakssjóðs í rekstri Stefnis og að meirihluta í eigu lífeyrissjóða, á meirihluta hlutafjár ISNIC.

Endanleg viðskipti eru háð samþykki SKE.

Stjórn ISNIC leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2025 vegna rekstrarársins 2024. Hluthafar voru 21 í árslok 2024.

Jens Pétur Jensen er framkvæmdastjóri og fór með 30,34% hlutafjár í ISNIC í lok árs 2024. Íslandspóstur fór með 19,18% hlut, LSR og Síminn með 1,96% hlut hvor, Alþingi með 1,18% hlut. Þá fór Magnús Soffaníasson með 17,24% hlut og Bárður Hreinn Tryggvason með 16,70% hlut í ISNIC í lok árs 2024.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.