Framtakssjóðurinn Umbreyting II, í rekstri Alfa Framtaks, er komin með 29,3% hlut í Origo, samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa upplýsingatæknifyrirtækisins þann 4. janúar 2023.

Umbreyting II festi kaup á 25,8% hlut í Origo í fyrri hluta desembermánaðar fyrir tæplega 2,7 milljarða króna á genginu 101 krónu á hlut.

Miðað við breytingar á listanum má ætla að sjóðurinn hafi keypt um 4,8 milljónir hluta, eða um 3,5% hlut í Origo, til viðbótar á tímabilinu 21. desember 2022 til 4. janúar 2023. Gera má ráð fyrir að kaupverðið hafi verið nálægt hálfum milljarði króna.

Svo virðist sem Festa lífeyrissjóður hafi selt meirihluta eða allan hlut sinn í Origo. Lífeyrissjóðurinn átti 2,9% hlut í Origo þann 20. desember síðastliðinn sem var um 407 milljónir króna að markaðsvirði miðað við að hlutabréfaverð Origo hafi verið 101 króna á hlut.

Alfa Framtak tilkynnti samhliða kaupum sínum Umbreytingar II í síðasta mánuði að sjóðurinn myndi leggja fram valfrjálst tilboð í allt hlutafé Origo á genginu 101 króna á hlut. Alfa sagði eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu Origo úr Kauphöllinni.