Um helmingur hluthafa upplýsingatæknifyrirtækisins Origo samþykkti valfrjálst tilboð framtakssjóðsins Umbreytingar II, í rekstri Alfa Framtaks, sem lauk á miðvikudaginn. Alls bárust samþykki fyrir samtals 47.294.847 hlutum í Origo, eða sem nemur 33,8% hlutafjár félagsins.
Söluandvirðið nemur alls um 4,8 milljörðum króna en tilboðsgengið í yfirtökutilboðinu, sem stóð hluthöfum Origo til boða frá 19. janúar til 22. febrúar, var 101 króna á hlut. Áætlað er að greiðsla til þeirra sem samþykktu tilboðið og afhending hluta fari fram 1. mars, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Umbreyting II hefur nú eignast 88,2 milljónir hluta, eða 63% hlut, í Origo en framtakssjóðurinn festi kaup á 29,3% hlut í fyrirtækinu í desember síðastliðnum.
Miðað við 101 krónu gengið má má ætla að heildarkaupverð Umbreytingar II í Origo sé nú um 8,9 milljarðar króna.
„Við erum þakklát fyrir þann góða hljómgrunn sem tilboð okkar hlaut meðal hluthafa Origo, en um helmingur hluthafa félagsins samþykkti tilboðið. Ljóst er að með þessu myndar Alfa Framtak mikilvæga kjölfestu í félaginu og þeirri umbreytingu sem framundan er. Við hlökkum til að raungera framtíðarsýn okkar í góðu samstarfi með núverandi stjórnendum Origo og öðrum hluthöfum,“ segir Gunnar Páll Tryggvason, framkvæmdastjóri Alfa Framtaks.
Í tilkynningunni kemur fram að Umbreyting II hafi nú öðlast yfirráð yfir Origo í skilningi laga um yfirtökur. Þar sem valfrjálsa tilboðið uppfyllti ákvæði 2.-4. mgr. 103 gr. laganna, eins og um skyldubundið yfirtökutilboð væri að ræða, verði sjóðnum þó ekki skylt að gera yfirtökutilboð í samræmi við 100 gr. laganna.
Samkeppniseftirlitið tilkynnti þann 17. febrúar að ekki væru forsendur til þess að aðhafast vegna tilboðsins. Þar með var eina skilyrði tilboðsins uppfyllt.
Í tilboðsyfirliti sínu sagðist Alfa Framtak telja eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu Origo úr Kauphöllinni „til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þarf í“.
Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var umsjónaraðili valfrjálsa tilboðsins fyrir hönd Alfa Framtaks og LEX veitti Alfa lögfræðilega ráðgjöf í tilboðsferlinu.