Alfa Framtak hefur komist að samkomulagi um fjárfestingu í hugbúnaðarfyrirtækinu Tixly, sem hét áður Tix. Fjárfesting Alfa Framtak í Tixly samanstendur af kaupum á hlutafé af hluthafa sem og fjármögnun sem á að styðja við vaxtaráform félagsins á erlendri grundu, að því er segir í tilkynningu.
Lykilhluthafar Tixly eftir viðskiptin verða, ásamt sjóði Alfa Framtaks, Sindri Már Finnbogason, Björn Steinar Árnason, sem einnig eru stofnendur félagsins, ásamt nokkrum af lykilstarfsmönnum félagsins.
Tixly er íslenskt félag sem sérhæfir sig í miðasölulausnum fyrir viðburðarhaldara á borð við menningar- og viðburðarhús. Í tilkynningunni segir að fyrirtækið hafi vaxið verulega á síðustu árum og sé nú með starfsemi í tólf löndum, þar með talið Noregi, Danmörku, Belgíu og Hollandi.
Fyrirtækið gengur undir vörumerkinu Tix á Íslandi og var stofnað árið 2014. Framkvæmdastjóri félagsins er Hrefna Sif Jónsdóttir og alls starfa 46 manns hjá fyrirtækinu.
„Tixly hefur verið í hraðri sókn á alþjóðlegum vettvangi og er nú með starfsemi í ríflega 12 löndum. Umfang félagsins hefur því aukist verulega og er nú rétti tímapunkturinn að fá virkan fjárfesti að borðinu, sem getur stutt við vegferðina með fjármagni og þekkingu. Framundan eru stór verkefni sem snerta allt frá vöruþróun til sölu á nýjum markaðssvæðum,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tixly.
„Tixly hefur á síðustu árum þróað öfluga lausn sem er fremst á sínu sviði í dag. Hún er notendavæn og einföld í innleiðingu og hefur reynst viðskiptavinum félagsins vel víða um heim. Sókn félagsins á erlendri grundu hófst að alvöru fyrir um tveimur árum og hefur félagið náð miklum árangri síðan þá. Með fjárfestingunni ætlum við að styðja við félagið þannig að það nái markmiðum sínum á næstu árum,“ segir Árni Jón Pálsson, fjárfestingastjóri hjá Alfa Framtak.