Alfa Framtak hefur samið um kaup á 100% hlutafjár í Hótel Eyju ehf. en endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fjárfestingin er gerð í gegnum sjóðinn AF2 slhf. og eignarhaldsfélagið AU 23 ehf.

Hótel Eyja er 65 herbergja fjögurra stjörnu hótel staðsett í Brautarholti í Reykjavík. Hótelið sem opnaði árið 2016 hefur verið í eigu og í rekstri hjónanna Lindu Jóhannsdóttur og Ellerts Finnbogasonar.

Hótelið einkennist af nútímalegri hönnun í bóhemskum stíl og býður meðal annars upp á veitingastað, bar, líkamsrækt og fundarrými fyrir viðburði.

„Við erum afar ánægð að fá Hótel Eyju með í hótelvegferðina okkar og spennt fyrir fyrstu fjárfestingu okkar á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Markús Árnason, fjárfestingastjóri Alfa Framtaks.

„Við höfum mikla trú á íslenskri ferðaþjónustu, og Reykjavík er lykilmarkaður sem við teljum mikilvægt að vera hluti af. Fráfarandi eigendur hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á gæði og framúrskarandi þjónustustig og við hlökkum til að halda áfram á sömu braut”.

AF2 hefur þegar fjárfest í fimm hótelum víðs vegar um Ísland, og verður Hótel Eyja sjötta hótel fjárfesting sjóðsins – og auk þess sú fyrsta á höfuðborgarsvæðinu. Önnur hótel í eigu sjóðsins eru Hótel Höfn á Höfn í Hornafirði, Hótel Hamar í Borgarnesi, Umi Hótel á Suðurlandi, Hótel Flókalundur á Vestfjörðum og Magma Hótel við Kirkjubæjarklaustur.

Alfa Framtak teymið.
© Aðsend mynd (AÐSEND)