Alfa Framtak hefur samið um kaup á 100% hlut í Hótel Umi á Suðurlandi, en endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Fjárfestingin er gerð í gegn um sjóðinn Umbreytingu II slhf. og eignarhaldsfélagið AU 23 ehf.

Umbreyting II hefur nýlega einnig keypt 100% hlut í Hótel Höfn og 50% hlut í Hótel Hamri.

„Sjóðurinn er með fleiri hótelverkefni til skoðunar en Alfa Framtak telur langtímahorfur í ferðaþjónustunni góðar,“ segir í tilkynningu Alfa Framtaks.

„Ferðaþjónusta er undirstöðu atvinnugrein á Íslandi sem hefur einnig þá sérstöðu að skapa fjölbreytt bein og afleidd störf víðsvegar um Ísland. Að mati Alfa Framtaks eru langtímahorfur góðar og þarf atvinnugreinin á fjárfestingu að halda til þess að geta annast þá miklu spurn sem er eftir því að heimsækja landið okkar.“

Teymi Alfa Framtaks. Standandi: Hörður Guðmundsson, Áslaug Gunnarsdóttir, Árni Jón Pálsson, Gunnar Páll Tryggvason framkvæmdastjóri, Rakel Guðmundsdóttir og Markús Hörður Árnason. Sitjandi: Anna Þorbjörg Jónsdóttir og Fanndís Sara Guðjónsdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hyggjast stækka hótelið

Hótel Umi er 28 herbergja hótel á Suðurlandi sem opnaði 2017. Áformað er að ráðast í stækkun á hótelinu.

Hjónin Sigurður M Sólonsson og Arnfríður Hjaltadóttir stofnuðu hótelið ásamt fjölskyldu og vinum. Sandra Dís, innanhúsarkítekt og lýsingarhönnuður, kom að hönnun hótelsins.

„Fjölskyldan hefur laðað að sér öflugu starfsfólki, sem mun halda áfram að sinna rekstrinum, má þar helst nefna hótelstýruna Önnu Kruczek og eiginmann hennar Jakub Kruczek. Með aðkomu Alfa Framtaks er stefnt að því að styðja enn frekar við fyrirtækið og að tryggja framtíðarstöðu hótelsins,“ segir í tilkynningunni.

„Fráfarandi eigendur hafa lagt áherslu á að byggja upp traust vörumerki, hafa stórbætt aðstöðu starfsmanna og eru nú að ljúka við uppbyggingu á spa aðstöðu sem Sandra Dís innanhúshönnuður og Arnar Grétarsson arkítekt hönnuðu.“

„Hótelið hefur vaxið verulega frá því að við opnuðum fyrst árið 2017 og teljum við framtíðarhorfur í greininni góðar. Stefnt er að því að stækka hótelið sem mun kalla á fjármagn og athygli eigenda. Við fögnum því aðkomu Alfa Framtaks sem hafa getið sér gott orð í uppbyggingu fjölskyldufyrirtækja og geta óskandi tekið hótelið á næsta stig. Eins viljum við þakka starfsfólki okkar fyrir frábært samstarf, ásamt öllum okkar góðu viðskiptavinum og gestum,“ segir Sigurður.

Arnfríður Hjaltadóttir, Sandra Dís Sigurðardóttir, Sólon Rúnar Sigurðsson og Sigurður M Sólonsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Alfa Framtak ehf. er rekstraraðili sérhæfðra sjóða. Auk framangreindra hótelfjárfestinga hefur Um­breyting II keypt meiri­hluta í Origo og leitt af­skráningu upp­lýsinga­tækni­fyrir­tækisins, fjár­fest í Thor Ice Chilling Solutions og keypt 90% hlut í heildversluninni Reykjafelli.