Alfa Framtak hefur samið um kaup á ráðandi hlut í Lyf og heilsu. Endanleg viðskipti eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

AF2, sjóður í rekstri Alfa Framtaks, hefur samið um kaup á ráðandi hlut í LHH25 ehf. Um er að ræða nýtt félag sem mun eiga 100% í Lyf og heilsu. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og gerast samhliða endurskipulagningu á samstæðu seljanda.

Meðal ráðgjafa í verkefninu eru BBA Fjeldco, LOGOS, KPMG, Deloitte og Arion banki.

Fyrirtækið rekur 27 lyfjaverslanir undir merkjunum Lyf og heilsa, Apótekarinn, Garðsapótek og Apótek Hafnarfjarðar. Félagið rekur einnig 4 lyfjaútibú. Auk lyfjaverslana rekur félagið tvær gleraugnaverslanir undir merkinu Augastaður, SA Lyfjaskömmtun og Gamla apótekið, sem sérhæfir sig í framleiðslu á kremum, áburðum og olíum. Alls starfa um 300 manns hjá félaginu í um 175 stöðugildum.

Lyf og heilsa leggur áherslu á heilsu og heilbrigði og er markmið þess að auka lífsgæði viðskiptavina sinna, veita persónulega, örugga og faglega þjónustu með breiðu úrvali lyfja, heilsutengdra vara og snyrtivara. Með viðskiptunum er stefnt að því að styðja við þessar áherslur og markmið, enda eru lyfjaverslanir lykil innviðir í hverju samfélagi.

Alfa Framtak er rekstraraðili sérhæfðra sjóða og hefur langa reynslu af fjárfestingum, að styðja við vöxt og að leiða umbreytingar. Markmið Alfa Framtaks er að hámarka verðmæti fjárfestinga og skila fyrirtækjum af sér í betra ástandi við sölu og þannig skilja eftir sig jákvæð fótspor í íslensku viðskiptalífi.

Alfa Framtak teymið.
© Aðsend mynd (AÐSEND)