Umbreyting II – sjóður í rekstri Alfa framtaks – hefur gert tilboð í alla hluti hugbúnaðar- og tæknifyrirtækisins Origo upp á 101 krónu á hlut. Hluthafar munu fá tækifæri til að taka afstöðu til tilboðsins næstkomandi miðvikudag, 18. Janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum.
Sjóðurinn segist sjá tækifæri í þeirri umbreytingu sem fylgi kaflaskilum þeim sem í sölu dótturfélagsins Tempo fólust, og stendur vilji þess til afskráningar félagsins „í því skyni að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem tilboðsgjafi telur að ráðast þurfi í.“
Fram kemur að tilboðsverðið svari til hæsta verðs sem sjóðurinn hafi greitt fyrir hluti í félaginu síðustu sex mánuði en það samsvarar einnig síðasta gengi bréfanna frá því við lokun markaða í gær.
Greiðsla til þeirra sem tilboðið samþykkja mun fara fram í íslenskum krónum eigi síðar en fimm viðskiptadögum eftir að tilboðið rennur út, en gildistími þess er til kl. 13:00 miðvikudaginn 22. febrúar.
Vilja afskrá félagið og taka þátt í umbreytingum
„Tilboðsgjafi telur að ákveðin kaflaskil hafi átt sér stað hjá Origo í kjölfar sölu á öllum eignarhlut félagsins í Tempo til fjárfestingasjóðsins Diversis Capital. Alfa Framtak vill taka þátt í þeim umbreytingum sem eru fylgifiskur slíkra kaflaskila í góðri samvinnu við núverandi stjórnendur og aðra hluthafa með því að skerpa enn frekar á þjónustuframboði og skipulagi félagsins – viðskiptavinum og félaginu til hagsbóta,“ segir í tilkynningunni um ástæður tilboðsins.
„Í þessu gæti meðal annars falist aukið sjálfstæði einstakra rekstrareininga, svo sem notendalausna, og einnig kæmi til greina að skoða að fá inn meðfjárfesta í aðrar einstakar rekstrareiningar félagsins, en í því samhengi mætti til dæmis nefna Syndis og lausnir fyrir ferðaþjónustu.
Tækifæri gætu einnig falist í nýtingu á fjármunum félagsins til uppkaupa á hentugum viðbótareiningum við rekstur félagsins ef slík tækifæri sýna sig hratt, eða útgreiðslu hluta fjármunanna til hluthafa.
Tilboðsgjafi telur jafnframt að tækifæri geti falist í almennri endurskipulagningu og endurskoðun á húsakosti félagsins. Það er skoðun tilboðsgjafa að hlutabréf félagsins skuli afskráð úr kauphöll í því skyni að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem tilboðsgjafi telur að ráðast þurfi í.
Verði hlutirnir teknir úr viðskiptum, sem er meðal annars háð samþykki Nasdaq Iceland hf., verða þeir ekki skráðir á neinum viðurkenndum verðbréfamarkaði eða markaðstorgi fjármálagerninga og upplýsingagjöf félagsins verður takmarkaðri. Líkur eru því á að enginn virkur markaður verði með hlutina sem dregur úr seljanleika hlutabréfanna.“