Stjórn líftæknifyrirtækisins Algalífs samþykkti á fundi sínum í gær að hefja undirbúning fyrir skráningu fyrirtækisins á almennan hlutabréfamarkað árið 2025. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Stjórn Algalífs hefur fengið hið nýstofnaða ráðgjafafyrirtæki Hamrar Capital Partners til að halda utan um undirbúning skráningarinnar og veita eigendum félagsins sértæka ráðgjöf í ferlinu. Þá var Baldur Stefánsson, framkvæmdastjóri og einn eiganda ráðgjafafyrirtækisins Hamrar Capital Partners, kjörinn stjórnarformaður Algalífs á fundinum í gær.

Viðskiptablaðið sagði frá því í sumar að fjárfestahópur leiddur af Stoðum og framtakssjóðnum Umbreytingu II, í rekstri Alfa Framtaks, áttu í viðræðum um kaup á Algalífi af norskum eigendum félagsins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins varð hins vegar ekkert úr þeim viðræðum.

4,5 milljarðar í stækkun verksmiðjunnar

Algalíf ræktar örþörunga á Ásbrú í Reykjanesbæ og framleiðir úr þeim andoxunarefnið astaxanthín. Yfirstandandi 7.500 fermetra stækkun á verksmiðju Algalífs er komin vel á veg en heildarstærð verksmiðju Algalíf verður 12.500 fermetrar þegar verkinu lýkur seint á næsta ári. Janframt segir að framleiðslugeta félagsins muni fjórfaldast frá því sem nú er.

„Nýja verksmiðjan verður stærsta og fullkomnasta verksmiðja í heimi í framleiðslu á náttúrulegu astaxanthín og er heildarfjárfjárfesting vegna stækkunarinnar um 4,5 milljarðar króna.“

„Stækkunin hefur gengið í samræmi við áætlanir og fyrstu kerfin er þegar virk. Nýja verksmiðjan mun hjálpa Algalíf að styrkja sig í sessi sem eitt fremsta fyrirtæki í heimi í framleiðslu og markaðssetningu á náttúrulegu astaxanthíni. Til viðbótar mun bætt aðstaða gefa ný tækifæri til að leggja aukna áherslu á rannsóknir og þróun og sækja inn á nýja markaði,“ segir Orri Björnson, forstjóri Algalífs.

„Við erum afar spennt yfir því að fá Baldur Stefánsson til liðs við okkur sem stjórnarformann., og einnig að geta fljótlega aukið framleiðslu félagsins umtalsvert í nýrri hátækniverksmiðju. Fyrirhuguð skráning á hlutabréfamarkað mun gera okkur kleift að vaxa enn hraðar og styrkja okkur sem leiðandi fyrirtækis í rannsóknum og þróun, sem mun skila sér til viðskiptavina okkar og annarra hagaðila,“ segir Kenneth Bern, forstjóri HeTe Invest AS, eiganda Algalífs.