Líftæknifyrirtækið Algalíf hefur undirritað nýjan 15 ára samning um kaup á raforku af HS Orku. Með samningnum tryggir Algalíf sér næga orku vegna yfirstandandi stækkunar fyrirtækisins að Ásbrú í Reykjanesbæ, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Algalíf hefur verið í viðskiptum við HS orku frá því fyrirtækið var stofnað fyrir áratug.
Algalíf ræktar örþörunga og vinnur úr þeim fæðubótaefnið astaxanthín. Fyrirtækið segir að fyrirsjáanleiki stöðugleiki í orkuverði sem felist í samningnum styrki alþjóðlega samkeppnisstöðu þess til langs tíma.
Framkvæmdir við stækkun verksmiðjunnar á Ásbrú eru sagðar ganga vel. Algalíf áætlar að framleiðslugetan muni þrefaldast og starfsmannafjöldi tvöfaldast úr 40 í 80 þegar framkvæmdum lýkur 2023.
„Áætlað er að árleg velta fari yfir fimm milljarða króna eftir stækkun og með tryggum aðgangi að raforku er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækið verði það stærsta á heimsvísu í framleiðslu á sjálfbæru náttúrulegu astaxanthíni,“ segir í tilkynningunni.