Fjárfestar á hlutabréfamörkuðum hafa margir orðið fyrir höggi undanfarna daga vegna mikilla lækkana í mörkuðum í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjastjórnar að hefja tollastríð við flest ríki veraldar.

Hafsteinn Hauksson.
Hafsteinn Hauksson.

Spurður hvernig hann haldi að markaðir muni þróast á næstunni og hvað hann telji að þetta ástand muni vara lengi svarar Hafsteinn Hauksson, aðalhagfræðingur Kviku banka: „Algjör óvissa ríkir um framhaldið, meðal annars vegna þess að nokkuð hefur skort á skýra og samkvæma hugmyndafræði um tilgang og markmið tollana.

Forseti Bandaríkjanna og ráðgjafar hans hafa slegið í og úr, og ýmist rætt um tollana sem samningatæki til að knýja fram margvíslega eftirgjöf viðskiptaríkja sinna, eða sem varanlega efnahagsstefnu sem miðar að því að draga úr viðskiptahalla, hvetja til endurreisnar bandarískrar iðnaðarframleiðslu, og afla ríkinu tekna. Það flækir svo hugsanlega samningsgerð enn frekar hve trúverðugleiki bandarískra stjórnvalda í alþjóðasamfélaginu hefur skaddast á undanförnum vikum, enda er forsenda samninga yfirleitt sú að samningsaðilar treysti efndum hvors annars.”

Tollheimta komin til að vera

„Í ljósi þess að tollar hafa verið einn af fáum föstum í stjórnmálaheimspeki Trumps undanfarin 40 ár og þess hve mikla áherslu forsetinn hefur lagt á tolla við meinta endurreisn bandarísks efnahags á ég von á því að aukin tollheimta sé komin til að vera í einhverju formi,” segir Hafsteinn. „Það besta sem hægt er að vonast eftir er að bakslagið sem nú er að verða á alþjóðlegum mörkuðum og í efnahagslífi heimsins nái á endanum til stuðningsliðs forsetans og pólitískur þrýstingur aukist á að áformin verði milduð. Við erum byrjuð að sjá einhver merki um þetta nú þegar.”

Hafsteinn segir að fari svo að undið verð ofan af þyngstu tollunum með einhverskonar samningum við viðskiptaríki Bandaríkjanna gæti það stutt við bata á mörkuðum á næstu vikum. Auk þess sé líklegt að eitthvað dragi úr þeirri miklu áhættufælni, sem litað hafi markaði síðustu daga samhliða því sem markaðir melti áhrif tollana, líkt og gerðist í gær.

„Síðustu dagar eru til marks um aukna óvissu og flökt á mörkuðum, sem verða líklega varanlegur hluti fjárfestingarumhverfisins á meðan fyrirsjáanleiki í hagstjórn vestanhafs er ekki meiri en raun ber vitni.”

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.