Sameinað skipaflutningafélag – sem varð til þegar ThorShip rann inn í hollenskt systurfélag sitt Cargow síðasta haust með kaupum hins síðarnefnda á því fyrrnefnda á ótilgreinda upphæð – sér tækifæri í að útvíkka almenna fraktflutningsstarfsemi sína.
Félögin byggðust upp í kringum þjónustu við álver, en almennir gámaflutningar hafa orðið æ stærri hluti rekstrar beggja. Velta hins nýsameinaða félags nam um sjö milljörðum króna í fyrra en þar af velti ThorShip ríflega tveimur og hálfum.
Rekstur ThorShip og Cargow er um margt sambærilegur. Þau hafa starfað nokkuð náið saman allt frá stofnun Cargow árið 2012, enda annar af eigendum ThorShip á þeim tíma jafnframt í stofnendahópi Cargow. ThorShip hafði verið stofnað hálfum áratug fyrr og til að byrja með að mestu snúist um skipaflutningaþjónustu til og frá landinu fyrir álver Rio Tinto í Straumsvík.
Cargow – sem er skráð og hefur höfuðstöðvar í Hollandi og telur Bjarna Ármannsson athafnamann meðal stofnenda og lykilmanna – rekur fjögur systurskip sem það á og lét smíða og veitir álveri Alcoa á Reyðarfirði samskonar þjónustu.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.