Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar telur það slæma hugmynd út frá efnahagslegum og samfélagslegum sjónarmiðum að krefja ferðamenn um neikvætt PCR-próf við komuna til landsins. Þá segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hotels og formaður Félags fyrirtækja í hótelrekstri og gistiþjónustu, að aðgerðirnar yrðu mikið bakslag.

„Þetta er bara að öllu leyti verulega vond hugmynd efnahagslega og það er engin þolinmæði í ferðaþjónustunni gagnvart þessum hugmyndum,“ segir Jóhannes .

Fyrr í dag var greint frá því að Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefði í bígerð minnisblað til ráðherra um hertar aðgerðir á landamærum. Þar er kallað eftir að allir ferðamenn, óháð bólusetningu, verði krafðir um neikvætt PCR-próf.

Bakslag fyrir ferðaþjónustuna

„Það yrðir mikið bakslag. Prófin kosta oft talsvert meira en sjálft flugið," segir Kristófer . „Bæði yrði þetta aukin fyrirhöfn og viðbótarkostnaður hjá fólki sem vildi koma hingað til lands. Allt dregur þetta úr ferðavilja."

„Síðan dregur það úr trausti á Íslandi sem áfangastað ef við erum hringla með reglurnar. Margir vonuðu að þegar þjóðin væri fullbólusett, væri hægt að komast óhindrað til og frá landinu. Á einhverjum tímapunkti var talað um að markmiðið væri að ná svokölluðu hjarðónæmi. Það er mikilvægt fyrir okkur að vita hvert er lokamarkmið sóttvarnaryfirvalda."

„Við teljum þetta vera verulega óskynsamlegt frá efnahagslegu sjónarmiði og sjónarmiði ferðaþjónustunnar. Þetta mun augljóslega hafa neikvæð áhrif á bókunarstöðuna í vetur og setja verulegt högg á hina efnahagslegu viðspyrnu sem mánuðum saman er búið að tala um að skipti svo miklu máli,“ segir Jóhannes.

Kostnaðurinn við PCR-próf hleypur oft á tugþúsundum króna og tekur Jóhannes í sama streng og Kristófer um að aðgerðirnar myndu hafa neikvæð áhrif á ferðavilja erlendra ferðamanna til landsins, á fyrirtæki sem gætu þurft að bera kostnaðinn upp að vissu marki og á starfsfólk sem „sem hlýtur að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hafi á starfsmöguleika í vetur“.

Eina landið með takmarkanir á bólusetta?

Jóhannes segir það ekki gefið að efnahagsleg viðspyrna haldi áfram eingöngu af því að ferðamenn séu aftur byrjaðir að birtast í Leifsstöð. „Við verðum einfaldlega að passa að það sem við gerum hér á landi sé ekki að búa til óþarfa vandamál og hindranir gagnvart þessari efnahagslegu viðspyrnu.“

„Það gerðu stjórnvöld á mjög skynsamlegan hátt þegar þau lögðu upp þetta afléttingarplan í vor og gáfu bæði sóttvarnaryfirvöld og stjórnvöld út að nú þyrfti einfaldlega að láta reyna á þetta. Það kemur verulega á óvart að sóttvarnarlæknir fari á taugum nú bara fyrstu dagana og breyti um stefnu Það er bara alls ekki það sem lagt var upp með í vor.“

„Í raun má spyrja hvað það sé á Íslandi sem krefjist þess að það þurfi að herða reglur á landamærum þegar að ríki eins og Danmörk sem eru með allt að þúsund smit á dag, sem jafngildir um það bil 60 smitum á Íslandi, er frekar að létta á reglum. Þar er búið að gefa út að það verði ekki horft til fjölda smita heldur til álags á heilbrigðiskerfið. Ég veit ekki til þess að það séu nokkur önnur lönd sem eru með takmarkanir til bólusettra ferðamanna. Þó eru flest lönd í Evrópu með lakari stöðu í bólusetningum en við.“