Hlutabréf í Bandaríkjunum tóku við sér í gær eftir miklar lækkanir á miðvikudaginn. Allar helstu hlutabréfavísitölurnar vestanhafs lækkuðu um 3% eftir að Seðlabanki Bandaríkjanna greindi frá nýjum takti í vaxtalækkunarferlinu um miðja viku.
Viðsnúningur varð á S&P 500 vísitölunni í gær sem hækkaði um 0,7% í viðskiptum dagsins.
„Allar dýfur eru kauptækifæri núna,“ segir Steve Sosnick, fjárfestingastjóri Interactive Brokers, í samtali við Financial Times.
„Það má halda því fram að söluþrýstingurinn hafi verið of mikill en þegar þú sérð markaðinn taka við sér að nýju svona hratt sér maður að verðbréfamiðlarar eru prógrammeraðir til að kaupa í dýfunni, alveg sama hver ástæðan er,” segir Sosnick.
Nasdaq vísitalan, þar sem stóru tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, hækkaði einnig um 0,7% í gær eftir um 3,6% lækkun á miðvikudaginn.
Stóru tæknifyrirtækin sjö hafa einnig hækkað í utanþingsviðskiptum í dag en þau hafa átt stóran þátt í um 31% hækkun Nasdaq-vísitölunnar í ár.
Í framsýnni leiðsögn bandaríska seðlabankans á miðvikudaginn spáði bankinn hvar því verðbólga verði þrálátari á næsta ári en áður var talið.
Spáin bendir til þess að embættismenn áætli færri vaxtalækkanir, þar sem flestir gera ráð fyrir tveimur lækkunum fyrir árið 2025, samanborið við fjórar sem áætlaðar voru í september.
Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa til tíu ára hækkaði um 0,07% í gær og stóð í 4,57% við lokun markaða. Krafan hefur ekki verið hærri í sex mánuði eftir miklar hækkanir á miðvikudaginn.