Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman 5. febrúar en verðbólgumælingar nóvember, desember og janúar eru þar undir við næstu vaxtaákvörðun.
Að mati greiningardeildar Kviku banka mun nefndin halda áfram að lækka vexti.
„Við erum enn þeirrar skoðunar að allar líkur séu á að vaxtalækkunarferli haldi áfram í takti við hjöðnun verðbólgunnar á fundi nefndarinnar í febrúar. Þótt hlé á hjöðnun verðbólgunnar undanfarna mánuði slái e.t.v. á stemminguna fyrir öðru 50 punkta skrefi þykir okkur nýleg lækkun verðbólguvæntinga heimila og fyrirtækja þung lóð á vogarskálar jumbólækkunar,“ segir í spá Kviku.
Að mati greiningardeildarinnar liggur nefndinni ekki á að losa um raunaðhald peningastefnunnar á meðan verðbólga er yfir vikmörkum, en hún sé þó reiðubúin að lækka vexti í takti við hjöðnun verðbólgu- og verðbólguvæntinga með það fyrir augun að koma í veg fyrir hækkun raunvaxta.
Verðbólguspá hljóðar upp á óbreytta ársverðbólgu í janúarmánuði en einskiptishækkanir um áramótin eru stærsta ástæða þess.
Bankinn gerir þó ráð fyrir að verðbólga lækki myndarlegar strax í febrúar og hjaðni áfram fram í apríl og því er janúarmælingin aðeins hraðahrindun fremur en vegartálmi.
Kviku banki spáir því að vísitala neysluverðs lækki um 0,1% í janúar og verðbólga á ársgrundvelli verði 4,8%.