Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun svaraði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áhyggjuröddum um að hátt vaxtastig sé að hindra byggingageirann og hamla þannig íbúðauppbyggingu.

Á kynningarfundi Seðlabankans í morgun svaraði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri áhyggjuröddum um að hátt vaxtastig sé að hindra byggingageirann og hamla þannig íbúðauppbyggingu.

„Ég held að það séu bara allir komnir að smíða sem geta haldið á hamri,“ sagði Ásgeir.

„[Byggingargeirinn] hefur vaxið mjög hratt. Við sjáum á tölum að þessi byggingarfyrirtæki eru að óska eftir að ráða fólk. Þau eru að taka mikið af lánum út úr bankakerfinu. Þannig að byggingargeirinn er alveg á fullu. [...] Þannig að það er ekkert sem bendir til þess að háir vextir séu endilega að hindra framboð per se.“

Ásgeir bætti við að það væri eftir miklu að slægjast fyrir aðila að byggja, þar sem fasteignaverð hefði hækkað meira en byggingarkostnaður að undanförnu. Þá gæfu tölur um útlán í bankakerfinu til kynna að fasteignafélög og byggingarfyrirtæki séu þeir aðilar sem eru hvað helst að taka út lán.

„Mögulega eru þessar sífelldu yfirlýsingar að það sé yfirvofandi skortur á framboði ekki að öllu leyti réttar hvað það varðar.“

„Að einhverju marki húsnæðisskortur“

Ásgeir tók hins vegar undir að fasteignamarkaðurinn og hækkanir á honum hefðu mótað mjög atburðarásina í kringum verðbólguþróunina á síðastliðnum fjórum árum. Hvað varðar þróunina það sem af er ári þá spili yfir 70 milljarða króna aðgerðir ríkisins á fasteignamarkaðinn stóran þátt á eftirspurnarhliðinni.

Þó væru merki um að sölutími á íbúðamarkaði sé að lengjast sem sögulega hafi verið merki um að það sé fremur farið að kólna eða að eftirspurn sé að hægja á sér. Seðlabankinn þurfi að fylgjast áfram með þeirri þróun.

„Líka það sem við höfum séð er hækkun á leigu á sama tíma. Það sýnir bara það að það er að einhverju marki húsnæðisskortur.“

Óheppilegt að allur þunginn hvíli á greiðslubyrði heimila

Ásgeir var spurður á fundinum um mikla sókn almennings í verðtryggð lán eftir vaxtahækkanir Seðlabankans.

„Það er í sjálfu sér ekki óvenjulegt að heimilin sæki í verðtryggð lán miðað við hvað vextir eru háir. Það yrði mjög há greiðslubyrði sem fólk myndi annars hafa af lánunum sínum,“ svaraði Ásgeir.

„Almennt séð hefur peningastefnan marga kanala [sic] og þetta er bara einn af þeim. Það má alveg færa rök fyrir því að það sé ekkert endilega heppilegt að þessi einstaki kanall, sem er þá greiðslubyrði heimila, að allur þungi peningastefnunnar hvíli á honum. Að allur þunginn hvíli á heimilum hvað varðar hærri greiðslubyrði.“

Peningastefnan virki í gegnum fleiri þætti, m.a. í gegnum fyrirtækjalán. „Það er að sumu leyti alveg heppilegra að það séu breiðari áhrif.“

Hvað fjármálastöðugleika varðar þá hefði fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans ályktað að það sé jákvætt frá því sjónarhorni að fólk dreifi greiðslubyrðinni eins og verðtryggðu lánin séu hugsuð.

Ásgeir bætti við að verðtryggðu lánin sem bankarnir veita í dag séu ekki eins og gömlu Íslandslánin. Flestir bankar veiti í dag verðtryggð lán með 25 ára hámarki á lánstíma. Í gamla daga hafi almennt verið veitt 40 ára verðtryggð lán með jafngreiðsluskilmálum.

Þá sé einnig tiltölulega auðvelt í dag að færa sig á milli banka eða skipta um lánafyrirkomulag.