McDonald’s er ekki lengur með einkaleyfi á að kalla kjúklingaborgara sem seldir eru innan Evrópusambandsins „Big Mac“ samkvæmt dómi Evrópudómstólsins í dag. Samkvæmt niðurstöðunni er öllum evrópskum fyrirtækjum leyfilegt að nota orðið til að selja alifuglaafurðir.
Málið á sér rætur að rekja til Írlands þegar skyndibitakeðjan Supermac reyndi að tryggja sér vörumerkið og nafnið þegar hún var að færa út kvíarnar á meginlandi Evrópu.
McDonald‘s reyndi að koma í veg fyrir það og sagðist eiga rétt á notkun vörumerkisins. Árið 2017 lagði Supermac þó fram kæru og vildi að notkun skyndibitarisans yrði afturkallað á þeim grundvelli að McDonald‘s hafði ekki skilgreint hvers konar vörur flokkuðust sem Big Mac.
Hugverkastofa ESB tók málið til sín og aflýsti einkarétti McDonald‘s á öllum vörum en málið ílengdist þar sem McDonald‘s hélt áfram að áfrýja. Dómstóll í Lúxemborg tilkynnti svo í dag að McDonald‘s hefði ekki sýnt fram á notkun á Big Mac-nafninu samfellt í fimm ár í tengslum við kjúklingavörur.
McDonald‘s hefur því misst einkarétt á orðinu Big Mac hvað varðar alifuglaafurðir en fær að viðhalda vörumerkinu innan ESB þegar kemur að hamborgurum sem búnir eru til úr nautakjöti.