Allir starfsmenn tækni- og hugbúnaðarfyrirtækisins App Dynamic fá milljón krónur í jólabónus þetta árið.

Fyrirtækinu hefur vegnað afar vel síðustu ár og bæði umsvif og hagnaður aukist hratt, en velta nam 1,4 milljarði á síðasta ári og hagnaður 585 milljónum.

Eins og fram kom í nýlegri frétt Viðskiptablaðsins um ársuppgjör félagsins voru þar alls unnin 10 ársverk í fyrra, og fyrir það greiddar 129 milljónir króna í bein laun sem gerir meðallaun upp á 1,1 milljón króna á mánuði.

Jólagjöf vinnuveitandans er því – að meðaltali í það minnsta – hér um bil ígildi mánaðarlauna, en eðli máls samkvæmt dregst svo af því tekjuskattur og fleira.

Nóg hefur verið um að vera hjá App Dynamic síðustu misseri en fyrirtækið tók skrefið frá hugbúnaðarfyrirtæki yfir í tæknifyrirtæki fyrr á árinu þegar það hannaði sinn eigin vélbúnað frá grunni í fyrsta sinn fyrir komandi flaggskip sitt, AirServer Connect 3.