Meginmarkmið Samvinnufélags útgerðarmanna í Neskaupstað hafa haldist nánast óslitið alveg frá stofnun þess fyrir meira en 90 árum síðan. Félagið var stofnað árið 1932 í kjölfar mikillar heimskreppu sem reið yfir árið 1929.

Á þeim tíma höfðu kaupmenn Neskaupstaðar gríðarlegt vald yfir litlu útgerðarmönnunum sem störfuðu á svæðinu og seldu þeim bæði saltið og öll aðföng til veiðanna á himinháu verði.

Guðmundur Rafnkell Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN, segir að á þeim tíma hafi litlu útgerðarmenn bæjarins tekið þátt í stofnun félagsins. Nokkrir af stærri útgerðarmönnunum voru hikandi og stofnuðu sitt eigið félag sem varð ekki langlíft.

„Síðan í seinni heimsstyrjöldinni fór SÚN að flytja út fisk til Bretlands til að anna aukinni eftirspurn og það má í raun segja að það hafi verið þá sem félagið hafi vaxið. SÚN var þá með bát á leigu og notaði líka stærri báta bæjarins til að sigla með ísaðan fisk til Bretlands.“

Árið 1944 keypti SÚN svo fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar og byggði skömmu síðar hraðfrystihús í bænum. SÚN var þá komið með eigin fiskvinnslu ásamt því að sinna saltfiskverkun og útgerð.

„Þegar árin líða, nánar tiltekið 1957, þá stofnar SÚN Síldarvinnsluna og svo gerist það að Síldarvinnslunni gengur miklu betur en SÚN sjálft. Þá var það tillaga viðskiptabanka félaganna að Síldarvinnslan myndi kaupa öll framleiðslutækin af SÚN. Þar með tók dótturfyrirtækið árið 1965 yfir rekstur móðurfélagsins, þar með talið frystihúsið og allt sem það átti.“

Verslun og hagnaður

Aðalverkefni SÚN í dag er verslunar- og umboðsstarfsemi en félagið rekur meðal annars verslunina Súnbúðina í Neskaupstað. Þá er SÚN einnig með verslun í Molanum á Reyðarfirði sem ber heitið Veiðiflugan.

„Svo erum líka með umboð fyrir TM Tryggingar. Það er líka gaman að segja frá því að systurfélag SÚN, Olíusamlag útvegsmanna í Neskaupstað, OÚN, er einnig með umboð fyrir Olís.“

Félagið á þar að auki 11% hlut í Síldarvinnslunni og fær þar með greiddan fínan arð sem hefur hjálpað SÚN við að hagnast verulega á hverju ári. Guðmundur segir að hagnaðurinn sé síðan notaður til uppbyggingar í Neskaupstað á ýmsum sviðum.

Nánar er fjallað um málið í blaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgir Viðskiptablaðinu. Blaðið er opið öllum og hægt er að skoða það hér.