Skiptar skoðanir eru meðal markaðsaðila um hvort Peningastefnunefnd komi til með að lækka stýrivexti í fyrramálið eða halda þeim óbreyttum ef marka má markaðskönnun Viðskiptablaðsins sem framkvæmd var meðal á þriðja hundrað greiningar- og markaðaðila í dag og í gær.
Enn meiri fjölbreytni mátti greina í afstöðu svarenda til aðhaldsstigs peningastefnunnar og væntinga þeirra til verðbólguþróunar út þetta ár.
Greiningardeild Íslandsbanka spáir 0,25% (25 punkta) lækkun, en kollegar þeirra hjá Landsbankanum deila ekki þeirri bjartsýni og spá óbreyttum vöxtum.
Margir hafa bundið vonir við að vaxtalækkunarferli Seðlabankans geti nú loks hafist eftir að nokkuð hóflegir kjarasamningar náðust á almennum vinnumarkaði fyrir tveimur vikum, sem flestir telja munu stuðla að hjöðnun verðbólgunnar. Sumir hafa þó bent á að 80 milljarða króna útgjaldapakki ríkisins til að greiða fyrir samningunum kunni þar að setja strik í reikninginn.
Greint er frá niðurstöðum könnunarinnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta glöggvað sig á þeim hér.