Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um staðfestingu á nauðasamningi Allrahanda GL ehf. (AGL), sem rekur ferðaþjónustu undir merkjum Gray Line hér á landi. Sóknaraðilinn E.T. ehf., sem er kröfuhafi AGL, ber að greiða 400 þúsund krónur í kærumálskostnað. Úrskurð Landsréttar má finna hér.
Kristmundur Einarsson, framkvæmdastjóri E.T., segir í samtali við Viðskiptablaðið að félagið sé að meta stöðu sína. Endanleg ákvörðun um hvort reynt verði að fara með málið fyrir Hæstarétt verður tekin síðar í vikunni.
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður AGL, segir úrskurð Landsréttar vera í samræmi við væntingar félagsins enda sé úrskurður héraðsdóms ýtarlegur og vel rökstuddur. Hann vonar að með ákvörðun Landsréttar sé málinu lokið svo að unnt sé að ljúka uppgjöri við kröfuhafa.
Með úrskurði Landsréttar er AGL skrefi nær því að ljúka tveggja og hálfs árs tímabili fjárhagslegrar endurskipulagningar en fyrri nauðasamningi félagsins var hafnað af dómstólum.
Nauðasamningur AGL, sem felur í sér að lánardrottnum er boðin greiðsla á 30% krafna sinna, var staðfestur af kröfuhöfum félagsins í júlí síðastliðnum. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í lok nóvember mótmælti E.T. og móðurfélag þess, Snókur eignarhaldsfélag, kröfu AGL um staðfestingu nauðasamningsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Mótmæli E.T. og Snóks sneru einkum að því að síðarnefnda félagið hafði samþykkt að leggja AGL til nýtt hlutafé að fjárhæð 540 milljónir króna. Eftir kröfuhafafundinn í júlí var Snóki skipt út sem fjármögnunaraðila fyrir Pac1501, eiganda Hópbíla, sem er í eigu Horns III, framtakssjóðs í stýringu Landsbréfa.
Pac1501 tryggir AGL fjármögnun að fjárhæð 550 milljónir króna sem er liður í 830 milljóna króna kaupum á GL Iceland, dótturfélagi AGL, ásamt öllum bifreiðaflota AGL sem inniheldur 49 rútur. Kaup Pac1501 á hluta rekstrar AGL er nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.
Í úrskurði Landréttar segir að málatilbúnaður E.T., sem fór fram á að nauðasamningnum yrði hafnað, hafi frá öndverðu m.a. verið reistur á því að hafna ætti staðfestingu nauðasamningsins þar sem sú eftirgjöf sem skuldaranum yrði veitt væri mun meiri en sanngjarnt yrði talið í ljósi efnahags hans.
Landsréttur taldi að ný gögn sem E.T. lagði fram til að færa frekari stoð undir þá málsástæðu - verðmat á Hveradölum ehf., dótturfélagi AGL, að fjárhæð 730 milljónir króna - breyttu ekki niðurstöðu málsins, einkum með vísan til þess sem fram kemur í ákvæðum kauptilboðs Pac1501 um að fari fullnaðarefndir nauðasamningsins umfram kaupverðið, beri núverandi hluthafar AGL ábyrgð á því að koma með það fé sem þurfi til viðbótar til að efna nauðasamninginn að fullu.