Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til fimm og tíu ára hefur farið hækkandi á síðustu vikum og er komið aftur upp í 4%.
Það þýðir að skuldabréfamarkaðurinn sé að gera ráð fyrir því að verðbólga verði um 4% á næstu árum. Sé tekið tillit til óvissuálags má ætla að markaðurinn sé að verðleggja verðbólgu í kringum 3,5% - 4% á næstu árum.
„Þetta eru alls ekki góð skilaboð til peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Þar sem 4% eru efri vikmörk á peningastefnunni,“ segir Valdimar Ármann, fjárfestingastjóri Arctica Sjóða.
„Það eru kannski margvíslegir hlutir sem liggja að baki. Þetta gæti að einhverju leyti verið tengt framboði og eftirspurn á skuldabréfamarkaði. Það er búið að vera meira framboð af löngum og stuttum óverðtryggðum ríkisskuldabréfum frá ríkissjóði heldur en löngum verðtryggðum ríkisskuldabréfum,“ segir Valdimar.
Lífeyrissjóðir vilja almennt kaupa verðtryggðu skuldabréfin en af þeim sökum eru þau mögulega dýrari en óverðtryggðu bréfin.
„Það gæti verið ein skýring en í öðru lagi þá sýnir þetta að einhverju leyti minni trúverðugleika á að peningastefnan skili verðbólgunni í markmið. Meira að segja þegar það er horft til lengri tíma,“ segir Valdimar.
Það þýðir mögulega að peningastefnunefndin þurfi að halda stýrivöxtum og þá sérstaklega raunstýrivöxtum hærri en ella til að ná verðbólgunni niður.
„Það er mjög slæmt ef allir fara að miða sig við að verðbólgan verði að meðaltali 3,5% til 4% en ekki í kringum 2,5% til lengri tíma. Hún mun þá að lokum skila sér í 3,5% til 4%,“ segir Valdimar.