Kot er íslenskt sprotafyrirtæki sem hefur þróað gagnadrifna fasteignaviðskiptalausn fyrir eigendur fasteignaverkefna sem skilar sér í betri yfirsýn fyrir kaupendur og fasteignasala, sem og í skilvirkari sölu. Þetta segir Róbert Helgason, stofnandi og framkvæmdastjóri Kots. Um sé að ræða nokkurs konar heimabanka fasteignaviðskipta þar sem allir þátttakendur eru leiddir í gegnum viðskipti í skilvirku rauntíma viðmóti, frá tilboði til afsals. Kaupendur hafi allan sólarhringinn aðgengi að tilboðum, viðburðum, framvindu, greiðslum og skjölum. Eigendur verkefna fái skilvirkt viðmót til þess að halda utan um stöðu hundraða eigna og tilboða í samstarfi við margar fasteignasölur og fasteignasala, allt í rauntíma á einum stað.
„Minn bakgrunnur er úr fjármálageiranum en sá iðnaður er mjög kerfisvæddur. Eins og svo margir aðrir landsmenn hef ég staðið í fasteignaviðskiptum og rekið mig á hve stutt tæknivæðing þess geira er í raun komin. Þrátt fyrir að fasteignaviðskipti séu stærstu viðskipti sem flestir einstaklingar ráðast í á ævi sinni er hvergi hægt að skrá sig inn á síðu sem birtir yfirlit yfir fasteignaviðskipti hvers einstaklings. Mér fannst borðleggjandi að heimfæra þau tæki, tól, yfirlit og aðferðir sem einkenna fjármálageirann yfir á fasteignageirann,“ segir hann um það hvernig stofnun Kots kom til. „Kerfið er stofnað á þeirri hugsjón að fasteignaviðskipti eigi að vera sanngjörn og aðgengileg öllum alls staðar. Við höfum búið til viðmót sem hámarkar gagnsæi, skilvirkni og skýrleika í hverju skrefi. Okkar lausn hefur verið nýtt við sölu hundraða eigna og erum við með yfir þúsund fasteignir frá fjölda eigenda fasteignaverkefna ýmist skráðar til sölu eða sem eru væntanlegar á næstunni,“ bætir Róbert við.
Kerfið geri áhugasömum kaupendum einnig kleift að fylgja verkefnum og eignum með svipuðum hætti og þekkist á samfélagsmiðlum. Þeir fái þá tilkynningar í SMS þegar staða verkefna eða eigna breytist, eða þegar tilboð berast. „Með þessu er komið í veg fyrir að áhugasamir kaupendur lendi í því að eign sem þeir hafa áhuga á seljist áður en þeir hafa einu sinni fengið veður af því að búið sé að bjóða í eignina. Allir sitja við sama borð. Það er oft mikið að gera hjá fasteignasölum og skiljanlega hafa þeir ekki alltaf tök á að upplýsa alla áhugasama kaupendur um að tilboð sé komið á borðið. Með lausninni okkar hverfur þetta vandamál.“
Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Fasteignamarkaður, sem fylgdi nýjasta tölublaði Viðskiptablaðisins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.