Fjárfestingarfélagið Kjálkanes, systurfélag útgerðarfélagsins Gjögurs, hyggst greiða út allt að tvo milljarða króna í arð eftir að hafa selt hluti í Síldarvinnslunni fyrir 17 milljarða króna, samhliða skráningu SVN í Kauphöllina, með 9 milljarða söluhagnaði.
Kjálkaness greiddi einnig út einn milljarð í arð á síðasta ári. Félagið fer áfram með 17,4% hlut í Síldarvinnslunni sem er um 28 milljarðar að markaðsvirði.
Í aðdraganda skráningarinnar greiddi Síldarvinnslan út allan hlut sinn í SVN eignafélagi, stærsta hluthafa Sjóvá, til hluthafa. Kjálkanes fer með óbeinan 5% hlut í Sjóvá í gegnum þriðjungshlut sinn í SVN eignafélagi sem var bókfærður á 2,6 milljarða í lok síðasta árs.
Kjálkanes keypti á síðasta ári fjárfestingarverðbréf fyrir 2,7 milljarða. Félagið keypti um 0,5% hlut í Arion banka og er meðal 20 stærstu hluthafa Festi eftir að keypt 1,6% hlut í smásölufyrirtækinu á síðasta ári. Auk þess fjárfesti félagið í markaðsverðbréfum, þ.e. sjóðum, fyrir 6,6 milljarða.
Eignir Kjálkaness voru bókfærðar á 28,5 milljarða í lok síðasta árs og eigið fé var 25,5 milljarðar.
Stærstu hluthafar Kjálkaness og Gjögurs eru systkinin Anna Guðmundsdóttir og Ingi Jóhann Guðmundsson með samtals 45% hlut. Þá eiga Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, og systkini hans samanlagt álíka stóran hlut.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.