Að minnsta kosti milljarður dala – ígildi um 144 milljarða króna – af fjármunum viðskiptavina föllnu rafmyntakauphallarinnar FTX virðist hafa gufað upp. Þetta hefur fréttaveitan Reuters eftir tveimur heimildarmönnum sem þar til í nýliðinni viku voru í innsta hring starfseminnar.
Stofnandi og framkvæmdastjóri FTX, Sam Bankman-Fried, er sagður hafa millifært 10 milljarða dala í laumi af eignum viðskiptavina sem voru í vörslu kauphallarinnar til verðbréfamiðlunarinnar Alameda Research, sem Bankman-Fried átti í viðskiptum við fyrir.
FTX sótti um greiðslustöðvun á föstudag, sem jafnan er undanfari gjaldþrotaskipta vestanhafs.
Stór hluti fjárhæðarinnar – um 1,7 milljarðar dala eða um 250 milljarðar króna að sögn annars heimildarmannsins en hinn sagði töluna á milli eins og tveggja milljarða dala – finnist nú hvergi.
Viðmælendur Reuters segja Bankman-Fried hafa greint æðstu stjórnendum félagsins frá stöðunni síðastliðinn sunnudag.