Reginn fasteignafélag áætlar að gangi yfirtaka á Eik fasteignafélagi í gegn þá geti sameinað félag greitt samtals út allt að 33 milljarða króna á næstu fjórum árum. Þetta kemur fram í kynningu sem Reginn birti samhliða birtingu á tillögum að sátt við Samkeppniseftirlitið vegna yfirtökutilboðsins í Eik.
Reginn áætlar að hámarksarðgreiðsluhæfi sameinaðs félags til framtíðar nemi um 4 til 5 milljörðum króna á föstu verðlagi miðað við 60% skuldahlutfall félagsins. Áætluð árleg arðgreiðslugeta samsvarar um 1,2-1,5 krónur á hlut eða um 5,3-6,7% af markaðsvirði sameinaðs félags miðað við dagslokagengi hlutabréfa félaganna í gær.
Til viðbótar horfir Reginn fram á sértækar arðgreiðslur upp á samtals um 13 milljarða króna á árunum 2024 til 2028 vegna áformaðrar eignasölu sem er liður í sáttaviðræðunum við Samkeppniseftirlitið.
Tillagan felur í sér sölu á 41 fasteign sem nema samtals um 90 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði í væntanlegu sameinuðu eignasafni Regins og Eikar. Áformað er að sala eignanna eigi sér stað í tveimur söluferlinu.
Allt að 7 milljarðar í arð eftir fyrra söluferlið
Í fyrra söluferlinu er lagt til sölu á fasteignum sem telja samtals um 47 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu verði seldar. Reginn hefur hafið viðræður við Kaldalón fasteignafélag um þær eignir sem seldar verða í fyrra söluferlinu.
Reginn horfir til að söluandvirði umfram niðurgreiðslu skulda í þessu söluferli verði nýtt til sértækrar arðgreiðslu á næstu 12 mánuðum sem gæt numið allt að 7 milljörðum króna.
Í seinna söluferlinu, sem lagt er upp með að fari fram í kjölfar sameiningarinnar, er stefnt að því að seldar verði fasteignir á þriggja ára tímabili sem telja samtals um 43 þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði. Í þessu ferli yrðu í boði eignir á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri og horft er til þess að bjóða eignapakka sem taka mið af eðli og staðsetningu eignanna.
Í kynningu Regins kemur fram að söluandvirði úr eignasölu úr seinna söluferlinu bjóði upp á tækifæri til sértækra arðgreiðslna og/eða til frekari þróunar á eignasafni hins sameinaða félags.