Bandaríska viðskiptaráðuneytið hefur ákveðið að leggja allt að 3.500% tolla á innfluttar sólarsellur frá Suðaustur-Asíu. Tollarnir munu beinast gegn fyrirtækjum í Kambódíu, Tælandi, Malasíu og Víetnam.
Á vef BBC segir að ákvörðunin eigi sér rætur að rekja til rannsóknar sem hófst fyrir ári síðan þegar bandarískir framleiðendur báðu þáverandi forseta, Joe Biden, um að vernda starfsemi þeirra í Bandaríkjunum.
Á undanförnum árum hafa mörg kínversk fyrirtæki flutt starfsemi sína til Suðaustur-Asíu í von um að forðast tollahækkanir Donalds Trumps. Þá segjast bandarískir sólarselluframleiðendur ánægðir með niðurstöður rannsóknarinnar og ákvörðun stjórnvalda.
Nokkur fyrirtæki í Kambódíu munu meðal annars standa frammi fyrir hæstu tollunum, eða 3.521%, vegna þess hve ósamvinnuþýð þau voru við ráðuneytið. Lægstu tollarnir, eða um 41%, verða lagðir á kínverska fyrirtækið Jinko Solar, sem er með framleiðslu í Malasíu.
Kínverska fyrirtækið Trina Solar mun einnig fá á sig 375% toll en það félag framleiðir vörur sínar í Tælandi. Hvorugt fyrirtæki vildi tjá sig um málið við fjölmiðla þegar fyrirspurnir voru sendar.