Í Svíþjóð heldur netverslun áfram að auka hratt við sig og er nú svo komið að hún stendur undir þriðjungi af heildarvexti verslunar í landinu,“ segir Anna Felländer sem verður með fyrirlestur á ársfundi Samtaka verslunar og þjónustu sem haldinn er í dag. Vísar hún þar í tölur frá systursamtökum SVÞ í Svíþjóð.

„Þeir spá því að hin hefðbundna, staðbundna verslun hætti að bæta við sig fyrir árið 2025 svo allt frá 22 þúsund til 42 þúsund störf geti tapast í verslunargeiranum á tíu árum vegna aukinnar sjálfvirkni og stafrænnar tækniþróunar.“

Í dag starfar Anna sem ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar á sviði stafrænnar tækni, auk þess að hafa veitt fjölda stofnana og og nýsköpunarfyrirtækja ráðgjöf um þær hröðu breytingar sem eru á umhverfi verslunar og þjónustu vegna tækni og netvæðingar.

Á fundinum sem hefst klukkan 14:00 á Hilton Reykjavik Nordica, mun Landsbankinn einnig kynna nýja greiningu á stöðu, þróun og horfum í íslenskri verslun, en auk þess munu formaður SVÞ, Margrét Sanders og ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, halda tölu.

Anna Felländer segir breytta neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar fela í sér ögrandi verkefni fyrir alla sem starfa við verslun og þjónustu enda sé þróunin hröð.

„Á Íslandi eruð þið komin styttra á veg í hinni stafrænu umbyltingu verslunar, en hins vegar er mjög stór hluti af vinnuafli ykkar orðinn fær og vanur notkun á stafrænni tækni,“ segir Anna sem segir að fyrirtæki verði að aðlaga sig hratt að breytingunum sem eru í gangi.

„Fyrirtæki í verslunargeiranum verða að aðlaga virðiskeðju sína og hvað þau bjóða aldamótakynslóðinni sem er orðin alvön því að geta notað stafrænu tæknina til allra verka. Hún verslar og á í samskiptum á alveg nýjan hátt en árið 2025 má vænta þess að um 75% af vinnuafli Svíþjóðar verði orðin alvön í notkun stafrænu tækninnar.

Verslunarfyrirtæki verða að bjóða upp á stafrænan vettvang þar sem boðið er upp á sérsniðna þjónustu í rauntíma sem nýtist til að bæta upplifunina af versluninni. Þetta verða þau að gera ef þau ætla að eiga von um að halda viðskiptavinum sínum því aukin netverslun tryggir að viðskiptavinir geta verslað við fyrirtæki hvar sem er í heiminum í krafti aukinnar alþjóðavæðingar.“

Anna segir miklar breytingar í gangi undir yfirborðinu og því sé nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að nýta sér stafrænu tæknina áður en keppinautar stígi inn á markaðinn með betri tilboð.

„Mikilvægasta eign hvers fyrirtækis verður gagnagrunnurinn yfir viðskiptavinina, því þá getur fyrirtækið veitt einstaklingsþjónustu með hjálp aukinnar gervigreindar, þannig að mögulegt sé að áætla hvað hver viðskiptavinur kýs sér helst,“ segir Anna sem segir þetta ferli einnig hjálpa til við að reikna út birgðaþarfir.

„Ein af afleiðingunum af þessu er að störf í geiranum munu breytast, minna verður í boði af lítt eða ómenntuðum störfum en meiri þörf verður fyrir fólk með bæði góða félagslega og tæknilega færni, svo það geti leiðbeint viðskiptavinunum í gegnum þá möguleika sem tæknin býður upp á.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .