Framvirkir samningar í tengslum við S&P 500 vísitöluna benda til hóflegra hækkana hlutabréfa er markaðurinn opnar vestanhafs um hálf þrjú að íslenskum tíma.
Áætlað er að vísitalan muni hækka um tæpt 1% við opnun markaða sem er ekki nóg til að jafna út lækkanir gærdagsins.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um myndaðist töluverður söluþrýstingur á mörkuðum í gær og féll Nasdaq vísitalan um 3,4% á meðan S&P 500 vísitalan fór niður um 3%.
Nikkei vísitalan féll um 12,4% í Japan aðfaranótt mánudags sem er mesta lækkun á einum viðskiptadegi frá árinu 1987. Vísitalan tók við sér í gær og hækkaði um 10%.
Gengishrun japanskra hlutabréfa má rekja til vaxtahækkunar japanska seðlabankans síðastliðinn miðvikudag. Hækkunin kom bandarískum fjárfestum sem hafa verið að stunda vaxtamunarviðskipti með því að taka lán á 0% vöxtum í jenum og kaupa hlutabréfa í Bandaríkjunum og á Asíumarkaði.
Þegar seðlabankinn hækkaði vexti um 25 punkta hefur það áhrif á áhættuna af slíkum viðskiptum og losuðu fjölmargir stórir vogunarsjóðir við stöðutökur sínar í gær til að verja sig fyrir áhættu. Jenið styrktist í kjölfarið töluvert er sjóðirnir byrjuðu að losa um stöðutökur og breyta dölum í jen á ný.
Bankarnir ekki með í endurkomunni
Skráð félög í Japan gáfu eftir allar hækkanir ársins í viðskiptum gærdagsins en á sama tíma styrktist jenið umfram allar lækkanir ársins.
Í síðasta mánuði keypti einn dalur 162 jen en í gær stóð dalurinn í 142 jenum á einum tímapunkti. Bandaríkjadalur stendur í um 145 jenum þegar þetta er skrifað.
Þrátt fyrir að Nikkei vísitalan ætti ágætis endurkomu í nótt voru bankabréf þar undanskilin.
Gengi stærsta banka Japans, Mitsubishi UFJ Financial Group eða MUFG, hækkaði um 5,8% í viðskiptum næturinnar eftir um 18% lækkun á mánudaginn.
Mizuho Financial hækkaði um 5,9% eftir um 20% lækkun. Sumitomo Mitsui Financial Group hélt áfram að lækka og fór niður um 2% eftir 16% lækkun á mánudaginn.
Að lækka vexti í flýti er engin lausn
Í leiðara The Wall Street Journal í dag er því vissulega gefið gaum að ótti fjárfesta um mögulegan efnahagssamdrátt í Bandaríkjunum sé raunverulegur en fjárfestar eru þar áminntir um að anda með nefinu.
Vinnumarkaðsupplýsingar föstudagsins sýndu með engum hætti atvinnuleysistölur benda til þess að kreppa sé yfirvofandi. Þá er einnig erfitt að sjá hvaða áhrif 25 punkta vaxtalækkun í júlí fremur en september myndi hafa á atvinnuleysi til skamms tíma.
Í leiðaranum segir að í raun hafi peningalegt aðhald bandaríska seðlabankans ekki verið það mikið eins og sjá má á verulegri hækkun hlutabréfa á árinu þrátt fyrir óbreytta vexti sem hafa ekki verið hærri í 22 ár.
Að mati ritstjórnar WSJ er með öllu óvíst hvaða efnahagslegu áhrif vaxtalækkun myndi hafa um þessar mundir. Allt tal um 50 punkta neyðarlækkun er að þeirra mati galin hugmynd sem myndi líklegast valda enn meira uppnámi og enn meiri söluþrýstingi.