Úrvalsvísitalan OMXI15 lækkaði um 2,6% í viðskiptum dagsins og lokaði í 2725,41 stigum sem er lægsta gildi vísitölunnar frá því í nóvember í fyrra.
Töluverðar lækkanir voru í Kauphöllinni í dag er gengi nær allra skráðra félaga lækkaði í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð Sýnar var það eina sem hækkaði í viðskiptum dagsins.
Gengi Sýnar fór upp um rúm 6% í 643 milljón króna viðskiptum en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í dag var tilkynnt um hálfs milljarðs utanþingsviðskipti með bréf félagsins við opnun markaða.
Gengið í viðskiptunum var 22,4 krónur á hlut og skiptust um 22,5 milljón hlutir í félaginu um hendur sem samsvarar um 9% hlut í fjarskipta- og fjölmiðlafélaginu.
Dagslokagengi Sýnar var 23,6 krónur.
JBT Marel leiddi lækkanir í viðskiptum dagsins er gengi félagsins fór niður um 5,6% í tæplega 100 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréfaverð Play hélt áfram að lækka er gengið fór niður um 5,56% í örviðskiptum. Dagslokagengi Play var 0,68 krónur en miðað við það er markaðsvirði flugfélagsins komið undir 1,3 milljarða.
Gengi bréfa Eimskips lækkaði um tæp 4% í 73 milljón króna veltu. Dagslokagengi gámaflutningafyrirtækisins var 423 krónur.
Gengi Icelandair lækkaði einnig um tæp 4% í 108 milljón króna veltu og var dagslokagengi flugfélagsins 1,15 krónur á hlut.
Þá fór gengi Alvotech niður um rúm 3% í 215 milljón króna veltu og lokaði gengi líftæknilyfjafélagsins í 1.440 krónum.
Heildarvelta á markaði nam 3,4 milljörðum króna.