Úr­vals­vísi­talan OMXI15 lækkaði um 1,54% í 1,2 milljarða króna við­skiptum í Kaup­höllinni í dag. Vísi­talan lokaði í 2.576,69 stigum.

Gengi Ocu­lis leiddi lækkanir er hluta­bréfa­verð aunglyfja­fyrir­tækisins fór niður um rúm 4% í 43 milljóna króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Ocu­lis var 2.320 krónur.

Hluta­bréfa­verð Amaroq lækkaði einnig um 4% í 60 milljón króna við­skiptum. Dagsloka­gengi Amaroq var 144 krónur á hlut.

Hluta­bréfa­verð Ís­lands­banka lækkaði síðan um 3,5% í 140 milljón króna við­skiptum og fór gengið niður í 110,5 krónur á hlut.

Al­mennt hluta­fjárút­boð á hlut ríkisins í Ís­lands­banka hófst í dag kl. 8:30 og gert er ráð fyrir að því ljúki fimmtu­daginn kl. 17.

Grunn­magn út­boðs nær til allt að 376.094.154 hluta í Íslands­banka hf, eða 20% af heildar­hluta­fé bankans.

Miðað við út­boðs­gengi í til­boðs­bók A má ætla að sölu­and­virði ríkisins verði a.m.k. 40 milljarðar króna ef full áskrift fæst.

Út­boðs­gengi fyrir til­boðs­bók A, þ.e. fyrir ein­stak­linga með ís­lenska kenni­tölu, er 106,56 krónur á hvern út­boðs­hlut.

Verðið byggði á meðal­verði hluta­bréfa í Ís­lands­banka hf. síðustu 15 daga fyrir birtingu út­boðslýsingar, með 5% fráviki.

Dagsloka­gengi Ís­lands­banka var sem fyrr segir 110,5 krónur á hlut og er því frávikið milli þess að kaupa á markaði eða taka þátt í út­boði ríkisins komið niður í 3,6%.

Gengi Al­vot­ech lækkaði einnig í við­skiptum dagsins. Hluta­bréfa­verð líftækni­lyfjafélagsins fór niður um 2,5% í 115 milljón króna við­skiptum.

Dagsloka­gengi Al­vot­ech var 1.345 krónur.