Skrýmir Árnason, tónlistarmaður á Höfn, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mikill vilji sé meðal íbúa Hafnar um að hefja millilandaflug á Hornafjarðarflugvelli. Hann hefur búið þar síðan 2005 og segir íbúa tala oft um að hentugt væri að geta flogið beint inn í einn stærsta þjóðgarð Evrópu.

Mbl greindi frá því fyrir helgi að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins hafi lagt til að skoða hvort nægur búnaður væri á Hornafjarðarflugvelli til að sinna þaðan millilandaflugi. Áhersla yrði þá lögð á millilandaflug með minni farþegaflugvélum og vélum í ferjuflugi.

„Ég hugsa að það myndi spara mikla umferð á Suðurlandi ef þeir sem koma til að sjá lónið og jökulinn kæmu bara hingað beint.“

Í greinargerð sem flutt var á síðasta löggjafarþingi segir að Hornafjarðarflugvöllur gegni mikilvægu hlutverki í samgöngukerfi landsins og að mikilvægt væri að skoða áframhaldandi rekstur og uppbyggingu á svæðinu til hagsbóta fyrir heimamenn og atvinnulífið.

„Það er mín skoðun að það ættu að vera fleiri og stærri alþjóðavellir á landinu.“

„Allt svæðið myndi græða á millilandaflugi og það yrði mikil uppbygging á innviðum og verslun, sem bráðvantar hérna.“

Flugstoðir unnu þar að auki greinargerð að beiðni sveitarstjórna í janúar 2008 til að kanna möguleika á að gera flugvellina á Ísafirði, í Vestmannaeyjum og á Höfn að millilandaflugvöllum og til hvaða ráðstafana þyrfti að grípa til að slíkt gæti orðið að veruleika.

„Það er mín skoðun að það ættu að vera fleiri og stærri alþjóðavellir á landinu. Allavega einn í hverjum fjórðungi, það myndi létta á umferðinni á þessum ræfilslega þjóðvegi okkar og mögulega verða til þess að innanlandsflug yrði raunhæfur kostur fyrir landsmenn,“ segir Skrýmir.