Alma íbúðafélag, sem á ríflega þúsund íbúðir, hagnaðist um tæplega 6,2 milljarða króna árið 2024 samanborið við 2,2 milljarða hagnað árið áður.

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa að fjárhæð 4.000 milljónir króna vegna rekstrarársins 2024, að því er kemur fram í ársreikningi leigufélagsins.

Telja arðsemi af útleigu íbúða of lága

Heildartekjur samstæðunnar námu 5,7 milljörðum króna í fyrra samanborið við tæplega 4,8 milljarða árið áður. Leigutekjur samstæðunnar námu 5.160 milljónum króna, sem er hækkun um 787 milljónir milli ára og skýrist að mestu af útleigu á nýbyggðu atvinnuhúsnæði.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir ársins (EBITDA) var 4.180 milljónir króna og hækkaði um 942 milljónir milli ára. Matsbreyting fjárfestingareigna nam tæplega 3 milljörðum í fyrra samanborið við 5,5 milljörðum árið 2023.

„Við erum nokkuð ánægð með niðurstöðu síðasta árs og þakklát fyrir góða eftirspurn eftir þjónustu félagsins. Meðaltalsnýting í langtímaleigu íbúðarhúsnæðis var áfram góð, en lækkaði úr 96,1% árið 2023 í 95,2% árið 2024, aðallega vegna ótekjuberandi eigna í söluferli,“ segir Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags.

Hann segir stjórnendur félagsins engu að síður líta svo á að arðsemi af útleigu íbúðarhúsnæðis sé of lág til lengri tíma litið, sér í lagi með hliðsjón af háu raunvaxtastigi. Arðsemi af útleigu íbúðarhúsnæðis nam 3,8% á árinu og hækkaði um 0,4% milli ára.

Í lok síðasta árs taldi eignasafn Ölmu samtals 1.063 fasteignir, þar af 1.027 íbúðir og 36 atvinnueignir. Á síðasta ári seldi félagið 24 íbúðir sem flokkaðar eru sem fjárfestingareignir en engin íbúð var keypt.

Með 13,3 milljarða hlut í skráðu fasteignafélögunum

Afkoma Ölmu af eignarhlutum í öðrum félögum 4,8 milljarðar árið 2024, en sami liður var neikvæður um 886 milljónir árið áður.

Gera má ráð fyrir að þessi aukning skýrist einkum af hækkun á hlutabréfaverði fasteignafélaganna Eikar, Heima og Reita sem samstæðan á hlut í í gegnum fjárfestingarfélagið Brimgarða. Í árslok námu verðmæti hlutabréfaeigna samstæðunnar í skráðu fasteignafélögunum samtals 13,3 milljörðum króna.

Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 117 milljarða króna í árslok 2024 og eigið fé var um 40,7 milljarðar.

Alma íbúðafélag er í eigu Langasjávar sem er að stærstum hluta í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.