Alma íbúðafélag skilaði 5,4 milljarða króna hagnaði árið 2022, samanborið við 12,4 milljarða hagnað árið áður. Breytinguna má einkum rekja til minni matsbreytingar fjárfestingareigna, aukinn fjármagnskostnað og verri afkomu dótturfélagsins Brimgarða.

Stjórn Ölmu íbúðafélags leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa á árinu 2023 vegna rekstrarársins 2022, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi.

Hreinar leigutekjur Ölmu jukust um 36% á milli ára og námu 2,8 milljörðum króna. Aðrar rekstrartekjur námu 661 milljón. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 3,2 milljörðum samanborið við 1,9 milljarða árið áður.

„Góð eftirspurn var eftir þjónustu félagsins á síðasta ári. Meðaltalsnýting í langtímaleigu íbúðarhúsnæðis hækkaði úr 95% árið 2021 í 97% á síðasta ári og í lok árs var nýtingin komin í rúmlega 98%,“ segir Ingólfur Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ölmu í afkomutilkynningu.

„Þrátt fyrir að arðsemin af útleigu íbúðarhúsnæðis hafi hækkað í 3,3% á árinu er sú arðsemi of lág til lengri tíma litið.“

Matsbreyting fjárfestingareigna nam 8,3 milljörðum í fyrra samanborið við 10,2 milljarða árið 2021.

Hrein fjármagnsgjöld námu 5,3 milljörðum króna í fyrra en til samanburðar var félagið með hreinar fjármunatekjur upp á 2,1 milljarða árið 2022. Breytinguna má að stærstum hluta rekja til þess að afkoma af eignarhlutum í öðrum félögum var neikvæð um 1,1 milljarð en jákvæð um 4,2 milljarða árið 2021.

Alma eignaðist fjárfestingarfélagið Brimgarðar, sem er meðal stærstu hluthafa fasteignafélaganna þriggja á aðalmarkaði Kauphallarinnar, árið 2021. Brimgarðar voru í eigu Langasjávar, sem keypti Ölmu stuttu áður í ársbyrjun 2021.

„Árið 2022 var fyrsta heila árið sem Brimgarðar ehf. og 14. júní ehf. voru inn í rekstrarreikning samstæðunnar og setur það sinn svip á samanburð við rekstur fyrra árs,“ segir Ingólfur.

Eignir Ölmu íbúðafélags voru bókfærðar á 98 milljarða króna í lok síðasta árs. Eigið fé félagsins nam 32,2 milljörðum.

Alma keypti 66 íbúðir en seldi 58 ásamt því að samstæðan keypti 3 atvinnuhúsnæðiseignir. Í lok síðasta árs taldi eignasafnið um 152 þúsund fermetra. Í árslok 2020 voru 1.082 íbúðir í eignasafninu og 58 þúsund fermetrar af atvinnuhúsnæði.