Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að Alma Möller landlæknir verði heilbrigðisráðherra Íslands muni Samfylkingin leiða næstu ríkisstjórn.
Alma var skipuð landlæknir árið 2018 en tók sér leyfi til að fara í framboð fyrir Samfylkinguna. Hún er oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.
„Allan daginn er hún heilbrigðisráðherraefni Samfylkingarinnar,“ sagði Kristrún íGrjótkastinu hjá Birni Inga Hrafnssyni fjölmiðlamanni.
Alma er landsmönnum kunnug fyrir að hafa verið áberandi hluti af þríeykinu svokallaða í kórónuveirufaraldrinum.
Hún sagði nýverið í viðtali við Pallborðið á Vísi að sóttvarnaraðgerðir hér á Íslandi hefðu verið minni en í Svíþjóð en Svíum hefur verið hrósað á heimsvísu fyrir að hafa stigið varlega til jarðar með valdboðum í kringum faraldurinn.
„Það voru þær aldeilis ekki. Það er til sóttvarnarvísitala og ef eitthvað voru þær minni hér en í Svíþjóð. Við lokuðum skólum minna en flestar þjóðir, við vorum aldrei með útgöngubann eða lokuð landamæri þannig ég hvet fólk til að kynna sér þessa vísitölu.
Vissulega voru áhrifin á efnahaginn talsverð vegna þess hve ferðamennska er stór hluti af okkar útflutningstekjum, nærri 40 prósent þá. Aftur á móti tókst okkur að örva innlenda starfsemi,“ sagði Alma.