Kristrún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, segir að Alma Möller land­læknir verði heil­brigðis­ráðherra Ís­lands muni Sam­fylkingin leiða næstu ríkisstjórn.

Alma var skipuð land­læknir árið 2018 en tók sér leyfi til að fara í fram­boð fyrir Sam­fylkinguna. Hún er oddviti Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi.

„Allan daginn er hún heil­brigðis­ráðherra­efni Sam­fylkingarinnar,“ sagði Kristrún íGrjót­kastinu hjá Birni Inga Hrafns­syni fjölmiðla­manni.

Alma er landsmönnum kunnug fyrir að hafa verið áberandi hluti af þríeykinu svo­kallaða í kórónu­veirufar­aldrinum.

Hún sagði nýverið í viðtali við Pall­borðið á Vísi að sótt­varnarað­gerðir hér á Ís­landi hefðu verið minni en í Svíþjóð en Svíum hefur verið hrósað á heimsvísu fyrir að hafa stigið varlega til jarðar með valdboðum í kringum faraldurinn.

„Það voru þær al­deilis ekki. Það er til sótt­varnar­vísi­tala og ef eitt­hvað voru þær minni hér en í Svíþjóð. Við lokuðum skólum minna en flestar þjóðir, við vorum aldrei með út­göngu­bann eða lokuð landa­mæri þannig ég hvet fólk til að kynna sér þessa vísitölu.

Vissu­lega voru áhrifin á efna­haginn tals­verð vegna þess hve ferða­mennska er stór hluti af okkar út­flutnings­tekjum, nærri 40 pró­sent þá. Aftur á móti tókst okkur að örva inn­lenda starf­semi,“ sagði Alma.