Talsvert fleiri kjósendur eru ánægðir heldur en óánægðir með ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar um að taka ekki við þingsæti nái hann kjöri fyrir Samfylkinguna.

Þórður Snær, sem er í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður, tilkynnti um ákvörðun sína um miðjan mánuðinn í kjölfar umræðu um gömul skrif hans á blogginu „Þessar elskur“, sem haldið var uppi af hon­um og fé­lög­um hans á ár­un­um 2004-2007.

Prósent gerði skoðanakönnun fyrir Þjóðmál dagana 22. - 26. nóvember um ákvörðun Þórðar Snæs. Spurningin hljóðaði svo:

Hversu ánæg(ð/ður/t) eða óánæg(ð/ður/t) ert þú með ákvörðun Þórðar Snæs Júlíussonar að taka ekki við þingsæti nái hann kjöri fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum?

Um 23% svarenda segist ánægður með ákvörðun Þórðar Snæs, 36% hvorki né og 19% óánægð. Þrettán prósent svarenda segjast aldrei hafa heyrt um Þórð Snæ, en það svar var algengast meðal yngstu aldurshópanna í könnuninni.

Ákvörðunin var vinsælli meðal kvenna heldur en karla. 38% kvenna sem tóku þátt segjast ánægðar með ákvörðunina en 13% óánægðar. Um 28% karla eru ánægðir með ákvörðunina og 28% óánægðir.

Afstaða til ákvörðunar Þórðar Snæs

>

Your browser does not support the canvas element. This canvas shows a chart with the title Afstaða til ákvörðunar Þórðar Snæs

Þórður Snær er stofnandi og fyrrverandi ritstjóri Kjarnans. Myndin var tekin árið 2014 þegar Hjálmar Gíslason og Vilhjálmur Þorsteinsson urðu stærstu hluthafar í Kjarnanum.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Mesta óánægjan innan Samfylkingarinnar

Rúmlega þriðjungur stuðningsmanna Samfylkingarinnar eru ánægður með að Þórður Snær Júlíusson, hafi tekið ákvörðun um að taka ekki við þingsæti nái hann kjöri fyrir Samfylkinguna.

Afstaða stuðningsmanna Samfylkingar til ákvörðunar Þórðar Snæs.

>

Your browser does not support the canvas element. This canvas shows a chart with the title Afstaða stuðningsmanna Samfylkingar til ákvörðunar Þórðar Snæs.

Mesta óánægjan var meðal stuðningsfólks Samfylkingarinnar. Þar á eftir fylgdi stuðningsfólk VG en 26% þeirra segjast óánægð og 25% stuðningsfólks Viðreisnar segjast einnig óánægð.

Könnunin var gerð dagana 22. til 26. nóvember. Um var að ræða netkönnun meðal könnunarhóps Prósents og voru svörin samtals 1.182.

Fjallað er um málið í nýjasta þætti Þjóðmála sem kom út seinnipartinn í dag.