Meirihluti landsmanna virðist hlynntur því að fleiri atvinnugreinar en sjávarútvegur greiði auðlindagjöld samkvæmt könnun Gallup fyrir Viðskiptablaðið.
Í könnun sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið var spurt um viðhorf almennings til greiðslu auðlindagjalda en spurningin var eftirfarandi: „Ertu hlynnt(- ur) eða andvíg(ur) því að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem nýta náttúruauðlindir landsins greiði auðlindagjald?“
Tæplega 75% þátttakenda sögðust hlynnt því að aðrar atvinnugreinar en sjávarútvegur sem nýta náttúruauðlindir landsins greiði auðlindagjald, þar af voru 36,7% frekar hlynnt og 37,8% mjög hlynnt. Aðeins 8,5% þátttakenda voru andvíg slíkri gjaldtöku, þar af 3,5% frekar andvíg og 5% mjög andvíg. Þá voru 17% hvorki hlynnt né andvíg.
Leggjast misþungt á landshluta
Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar, og Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, skrifuðu saman grein sem birtist á dögunum í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni „Landsbyggðin borgar“. Veiðigjöldin voru þar til umræðu en einnig hugmyndir um auðlindagjöld almennt.
Bentu höfundarnir á að áhrif veiðigjaldafrumvarpsins myndu leggjast misþungt á ólíka landshluta. Í Norðausturkjördæmi yrði hækkunin hvað mest en á höfuðborgarsvæðinu og Suðvesturlandi væru áhrifin hverfandi.
Þá vöktu þeir athygli á fjárfestingum sjávarútvegsfyrirtækja á svæðinu og að greidd veiðigjöld væru margföld á við á arðinn en á sama tíma væru fyrirtæki á borð við Orkuveitu Reykjavíkur, sem skilar eigandanum margra milljarða króna í arð, sem greiði engin auðlindagjöld. Þar hljóti að vera um mismunun að ræða.
„Okkur fannst ástæða til þess að fara aðeins yfir það hverjir eru í rauninni að bera skarðan hlut frá borði með hækkandi veiðigjöldum og það er fyrst og fremst, og frekar hrópandi, landsbyggðin sem er að borga þennan auðlindaskatt. Miðað við umræðuna er þetta allt út frá sanngirnissjónarmiðum, að allir skulu borga fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum, og gott og vel, en ef það er stefnan þá hlýtur það að eiga við um fleira en bara fiskinn í sjónum,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.
Velta megi fyrir sér hvort aukin skattheimta sé sú vegferð sem landsmenn vilji fara í en í hið minnsta sé þörf á dýpri umræðu. Umræðan þurfi að miða að því hvað sé eðlilegast að fólk borgi fyrir aðganginn að auðlindum og hvað sé hóflegt.
Jafnræði milli atvinnugreina og landshluta sé forsenda þess að auðlindagjöld séu réttlát og sjálfbær en í tilviki veiðigjaldanna muni fyrirhuguð hækkun koma harkalega niður á byggðum landsins. Ljóst sé að afleiðingarnar á sveitarfélög á við Fjarðabyggð verði mikil.
„Það mun hafa afleiðingar og þær afleiðingar munu koma niður á þjónustufyrirtækjunum, þær munu koma niður á fjárfestingu og á endanum samkeppnishæfni,“ segir Ragnar
„Það sama gerist í öðrum geirum og ef við horfum til dæmis á heita vatnið, viljum við endilega fara að borga hærra gjald fyrir heita vatnið okkar, sem við höfum horft á sem sérstöðu og ákveðin lífsgæði? Það er alveg vitað mál að við þurfum að fara í miklar fjárfestingar til að bora fyrir heitu vatni og stækka hitaveitukerfið okkar, en þá þarf að fara að hækka þau gjöld og á endanum er það alltaf almenningur sem borgar.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.