Arnar Reyr Kristinsson, rekstrarstjóri Bara Spara, segir almenning hafa tekið mjög vel í nýju vefverslunina sem hann og samstarfsmenn hans settu í loftið í sumar. Hann segir tilgang netverslunarinnar vera að bjóða upp á nauðsynjavörur á sem hagkvæmasta verði.

Vefsíðan var í prufukeyrslu í júní og fengu þá starfsmenn verslunarinnar vini og fjölskyldumeðlimi til að panta vörur á vefsíðunni áður en hún færi í loftið.

„Hugmyndin að þessu kviknaði þegar þessi verðbólgu-manía byrjaði. Við fórum að leitast leiðar til að byrja með rekstur þar sem við gátum boðið upp á lægri kostnað en finnst í hefðbundnum verslunum,“ segir Arnar.

Hann segir söluna hafa gengið mjög vel alveg frá fyrstu dögum þegar markaðssetning byrjaði. „Almenningur hefur tekið mjög vel í þetta og vörurnar hafa klárast mun hraðar en búist var við.“

„Við erum bara mjög spenntir fyrir því að geta vakið enn meiri athygli á frábærum verðum“

Bara Spara býður aðeins upp á vörur sem fást á hagstæðu verði erlendis og þegar vörur klárast þá er þeim gjarnan skipt út fyrir öðruvísi vörur sem eru einnig ódýrar. Arnar segir að það væri frábært að geta boðið upp á hverja einustu vöru en hann vill fyrst og fremst einblína á hagstæð verð.

„Við erum með birgja í Evrópu sem við höfum verið að panta hjá og munum svo örugglega halda áfram að bæta við okkur fleiri birgjum sem geta boðið okkur vöru á samkeppnishæfu verði.“

Arnar bætir við að rekstrarkostnaður vefsíðunnar sé frekar fastur en segir að eftir því sem tekjurnar aukast þá sjái hann fram á að geta boðið upp á enn betra verð í framtíðinni. „Við erum bara mjög spenntir fyrir því að geta vakið enn meiri athygli á frábærum verðum.“