Smásölufjárfestar hafa sett um 67 milljarða bandaríkjadala í bandarísk hlutabréf á árinu þótt fagfjárfestar hafi dregið verulega úr hlutabréfaeign sinni vegna áhyggna af stefnu Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Samkvæmt gögnum VandaTrack, sem Financial Times greinir frá, hafa nettófjárfestingar smásölufjárfesta í bandarísk hlutabréf og kauphallarsjóði (ETF) nálgast 67 milljarða dala á árinu, sem er einungis lítils háttar minnkun frá 71 milljarði dala á fjórða ársfjórðungi 2024.
Þetta rennir stoðum undir þá hugmynd að almennir fjárfestar haldi áfram að vera bjartsýnir á markaðinn þótt markmið forsetans um tolla hafi skapað töluverða óvissu.
„Að kaupa dýfuna hefur verið næstum því örugg sigurstefna fjögur af síðustu fimm árum,“ segir Steve Sosnick, aðalmarkaðsgreinandi Interactive Brokers, sem er vinsæll vettvangur fyrir smásölufjárfesta.
„Þegar eitthvað virkar svona vel svona lengi, þá ertu líklegur til að halda áfram,“ bætir Sosnick við.
S&P 500 hefur fallið um 2% á árinu, meðan tæknigeirann hefur lækkað um 8%.
Þetta er í andstöðu við árin 2023 og 2024, þegar vísitalan ruddist áfram, knúin af vexti stærstu tæknifyrirtækjanna og umbunaði fjárfestum sem keyptu þegar markaðurinn lækkaði.
Fjárfestum þykir enn mikilvægara að missa ekki af tækifæri til að kaupa dýfuna en að forðast frekari lækkanir, segir Jim Paulsen, sjálfstæður markaðsgreinandi.
Gögn Goldman Sachs sýna að smásölufjárfestar hafa verið nettósöluaðilar bandarískra hlutabréfa einungis sjö daga á árinu, þótt S&P 500 hafi fallið 25 daga.
Aftur á móti ákváðu fagfjárfestar, samkvæmt greiningu Bank of America, að losa um sögulegt magn af bandarískum hlutabréfum í mars.
Almenningur kaupir í Tesla
Smásölufjárfestar halda áfram að kaupa hlutabréf sem höfðu áður skilað miklum hagnaði en hafa hlotið talsverð högg á árinu.
Í síðustu viku keyptu þeir hlutabréf í Tesla fyrir 3,2 milljarða dala og bréf í Nvidia fyrir 1,9 milljarða, samkvæmt gögnum JPMorgan Chase.
Sumir fagfjárfestar telja að mikill áhugi smásölufjárfesta geti verið merki um að hápunkti sé náð.
„Árið 1999, þegar hússtýran mín spurði hvaða bréf hún ætti að kaupa, þá vissi ég að allt myndi hrynja,“ segir Aleksander Peterc, greinandi hjá Bernstein.
Þá er ljóst að smásölufjárfestar eru áfram bjartsýnir á markaði þótt fagfjárfestar sýni vaxandi varkárni.